Leikmönnum verði gert að tilkynna um ofbeldismál

Af málstofunni um jafnrétti innan íþróttahreyfingarinnar fyrr í dag.
Af málstofunni um jafnrétti innan íþróttahreyfingarinnar fyrr í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Mikilvægt er að kynferðisbrotamál sem koma upp innan íþróttahreyfingarinnar séu ekki rannsökuð af viðkomandi íþróttafélagi. Tryggja þarf að óháður einstaklingur meti hvert mál fyrir sig og setji það í faglegt ferli, að sögn Kolbrúnar Hrundar Sigurgeirsdóttur, verkefnastýru Jafnréttisskóla Reykjavíkur og fulltrúa í framkvæmdastjórn Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands.

Kolbrún hélt erindi á málstofu um jafnrétti í íþróttum í Ráðhúsi Reykjavíkur í morgun þar sem hún kynnti niðurstöður starfshóps á vegum samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs sem átti að koma með tillögur að úrbótum á vinnulagi, viðhorfi og menningu innan knattspyrnuhreyfingarinnar.

Kveða tillögurnar meðal annars á um að uppfæra siðareglur og samninga, að skýra leiðir og viðbrögð við ofbeldismálum, að forysta KSÍ taki skýra afstöðu gegn ofbeldi og að knattspyrnusambandið geri átak í og verði leiðandi á sviði jafnréttismála innan íþróttahreyfingarinnar.

Vilja setja ákvæði í leikmannasamninga

Að sögn Kolbrúnar telur starfshópurinn þörf á að skýrt sé kveðið á um ofbeldismál í siðareglum KSÍ og að ákvæði séu í samningum leikmanna þar sem þeim verði gert að tilkynna ef þeir hafa ofbeldisbrot á bakinu eða ef slíkt mál er í vinnslu. 

„Við viljum hafa einhver verkfæri í höndunum ef við lendum í þeirri stöðu að mögulega þurfi að vísa fólki frá,“ segir Kolbrún. 

75% vissu ekki hvert ætti að leita

Þá telur starfshópurinn einnig þörf á að skýra leiðir og viðbrögð KSÍ og aðildarfélaga við ofbeldismálum en niðurstöður könnunar sem lögð var fyrir leikmenn í efstu tveimur knattspyrnudeildunum hér á landi benda til þess að yfir 75% iðkenda vita ekki hvert þeir eiga að leita með ofbeldismál. „Það segir okkur að það vantar upplýsingar.“

Að sögn Kolbrúnar hefur borið á því að einstaklingar veigri sér við því að tilkynna brot vegna ótta við að skaða feril gerandans, eða jafnvel sinn eigin. Vill starfshópurinn bæta úr þessu. 

„Við viljum að það sé fastur tengiliður við samskiptaráðgjafa og það sé alltaf framkvæmdastjóri félags eða framkvæmdastjóri ÍSÍ. Viðkomandi veit nákvæmlega hversu mörg mál koma upp í sínu félagi og sinnir þeim,“ segir Kolbrún og bætir við að lítil knattspyrnufélög þyrftu sömuleiðis að útnefna einhvern í þessa stöðu í þeim tilfellum þar sem framkvæmdastjóri væri ekki til staðar. 

Skýr afstaða gegn ofbeldi

Þá segir Kolbrún einnig mikilvægt að KSÍ taki skýra afstöðu gegn ofbeldi og að menningin breytist en knattspyrna hefur lengi verið afar karllægur vettvangur og ekki er langt síðan að konur fengu yfirhöfuð að taka þátt. 

Þó að mikill árangur hafi náðst síðustu ár liggur fyrir að enn sé róttæk vinna fyrir höndum hvað varðar viðhorfsbreytingu gangvart konum innan íþróttarinnar.

„Viðhorf fólks, hvernig það hlustar og hvernig fólk talar, ég held að þetta sé allt samtengt. Við erum að sjá ofbeldismál allsstaðar í samfélaginu, bæði í íþróttastarfinu og annarsstaðar og við þurfum að breyta kúltúrnum af því að ég held að við getum ekki slitið þetta í sundur. Það er ákveðinn menning sem við þurfum að brjóta upp og það á við um íþróttastarfið sem og annarsstaðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka