Rannsókn héraðssaksóknara á vinnubrögðum lögreglu á vettvangi skotárasar sem átti sér stað í Dalaseli á Egilsstöðum í lok ágúst síðastliðnum hefur verið hætt.
Þann 26. ágúst síðastliðinn gekk ríflega fertugur karlmaður berserksgang með skotvopn í Dalseli á Egilsstöðum. Hleypti hann af skotum bæði innanhúss og utan og endaði á að skjóta í átt að lögreglu þegar hún kom á staðinn. Þegar maðurinn neitaði að hlýða fyrirmælum lögreglu um að leggja frá sér vopnið skaut lögreglan hann í magann svo hann særðist. Maðurinn var í kjölfarið fluttur til aðhlynningar í Reykjavík með sjúkraflugi.
Málið fór strax á borð héraðssaksóknara sem rannsakaði árásina sem og vinnubrögð lögreglu þetta umrædda kvöld.
Við rannsókn embættisins kom þó ekkert fram sem gaf til kynna refsiverða háttsemi af hálfu lögreglu. Sá hluti málsins hafi því verið látinn niður falla. Þetta segir Friðrik Smári Björgvinsson, aðstoðarsaksóknari hjá Héraðssaksóknara í svari sínu við fyrirspurn Austurfréttar, sem greindi fyrst frá málinu.