Nýjar tölur benda til þess að aðstæður ungs fólks hér á landi séu að batna hratt og færast í það horf sem var fyrir heimsfaraldur kórónuveirunnar.
Þetta kemur fram í greiningu Karls Sigurðssonar, sérfræðings hjá BSRB, á upplýsingum um stöðu ungs fólks á vinnumarkaði. Karl bendir á í grein sem birt er á vefsíðu BSRB að heimsfaraldurinn hafi haft neikvæð áhrif á ýmsa þætti í lífi ungs fólks og rannsóknir sýni að fleiri flosnuðu upp úr námi, atvinnutækifærum fækkaði og atvinnuleysi jókst.
Bendir hann á að vísbendingar um virkni ungs fólks hér á landi megi fá í vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar um aldurshópinn 16 til 24 ára. „Þeim fækkaði milli áranna 2019 og 2020 sem voru í fullu starfi og hlutfastarfi, en fjölgað bæði hópi atvinnulausra og þeirra sem eru í hlutastarfi en vilja vinna meira. Einnig þeim sem eru tilbúnir til vinnu ef þeir teldu vinnu að fá og þeim sem eru utan vinnumarkaðar og ekki í atvinnuleit, en þar getur bæði verið um að ræða skólafólk og fólk sem ekki telst í neinni virkni,“ segir í grein Karls.
Ráða megi af mánaðarlegum tölum um atvinnuástandið að staða ungs fólks á vinnumarkaði hélt áfram að versna fram í maí á þessu ári. Þegar horft er hins vegar á næstu fimm mánuði frá júní og fram í október megi sjá að mikill viðsnúningur hefur orðið á aðstæðum ungs fólks á vinnumarkaði. „Staðan á sumar- og haustmánuðum í ár er svipuð og hún var sömu mánuði 2019 og mun betri en sömu mánuði árið 2020 hvað þessa þætti varðar, það er fjölda starfandi, atvinnulausa og fjölda utan vinnumarkaðar,“ segir enn fremur í greininni.
Aðstæður ungs fólks virðast því vera að færast í það horf sem var fyrir faraldurinn, ,,verði ekki bakslag í glímunni við faraldurinn á komandi mánuðum“.