Stærsti vinningur sögunnar var dreginn út

110 milljónir króna fóru til fjölskylduföður.
110 milljónir króna fóru til fjölskylduföður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stærsti vinningur í sögu Happdrættis Háskóla Íslands var dreginn út í kvöld, en hann hljóðaði upp á 110 milljónir króna.

Vinningurinn kom í hlut fjölskylduföður á Vesturlandi, sem er búinn að vera dyggur miðaeigandi til áratuga, eins og segir í tilkynningu frá happdrættinu.

Um er að ræða stærsta einstaka vinning sem greiddur hefur verið út í sögu happdrættisins.

Ekki fleiri miðar selst í aldarfjórðung

Fjöldi annarra miðaeigenda hafði einnig góða ástæðu til að gleðjast eftir útdrátt kvöldsins en rúmlega 4.200 manns skipta með sér rúmum 127 milljónum í skattfrjálsa vinninga.

Nýtt sölumet var einnnig slegið í HHÍ fyrir desemberútdráttinn og hafa ekki fleiri miðar selst í ríflega aldarfjórðung eða frá því í byrjun árs 1995.

„Miðasalan fór langt fram úr okkur björtustu vonum. Við vitum að stóri vinningurinn var vissulega að trekkja að en fólk er ekki síður að kaupa miða til að styðja við uppbyggingu Háskóla Íslands. Hagnaðurinn af happdrættinu rennur allur í uppbygginguna og happdrættið hefur nú þegar fjármagnað á þriðja tug bygginga á háskólasvæðinu.

Vonandi verða þær mun fleiri á næstu áratugum enda leggja þær grunninn að því stórkostlega starfi sem unnið er í Háskólanum,“ er haft eftir Úlfari Gauta Haraldssyni, sölu- og markaðsstjóra happdrættisins, í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert