Stærstum hluta krafna þrotabús Pressunnar hafnað

Frá Landsrétti.
Frá Landsrétti. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Lands­rétt­ur staðfesti í dag að mestu leyti dóms Héraðsdóms Reykja­vík­ur frá því í fyrra þar sem kröfu þrota­bús Press­unn­ar um að ríkið end­ur­greiddi því tæpr­ar 71 millj­ón­ar króna skuld var hafnað. Rík­inu var gert að greiða þrota­bú­inu lít­inn hluta upp­hæðar­inn­ar, 1,5 millj­ón­ir króna með vöxt­um.

Press­an átti vef­miðil­inn Press­an.is og keypti svo stærst­an hluta í DV, til viðbót­ar við fjölda lands­hluta­blaða eins og Ak­ur­eyri viku­blað, Aust­ur­land, Suðra og Sleggj­una, auk viku­blaða sem komu út á höfuðborg­ar­svæðinu.

Dóm­ur Lands­rétt­ar var kveðinn upp í dag en þrota­bú Press­unn­ar áfrýjaði hluta af stærra máli þangað úr héraði. 

Ann­ars veg­ar var um að ræða greiðslu að fjár­hæð 1.599.049 krón­ur sem greidd var 13. janú­ar 2017, en bókuð inn á skuld­ir þrota­bús­ins hjá rík­inu þann 18. maí 2017, og hins veg­ar greiðslu að fjár­hæð 69.188.500 krón­ur, sem greidd var 18. apríl 2017 en bókuð inn á skuld­ir rík­is­ins þann 18. maí 2017. 

Í dómi Lands­rétt­ar var fall­ist á að fyrri greiðslan væri rift­an­leg á grund­velli laga um gjaldþrota­skipti. Varðandi seinni greiðsluna, sem fyr­ir lá að var innt af hendi af hálfu þriðja aðila, benti Lands­rétt­ur á að hún hefði aldrei borist Press­unni eða verið fé­lag­inu á ann­an hátt aðgengi­leg eða til ráðstöf­un­ar.

Var því ekki talið að greiðslan hafi á neinn hátt rýrt eign­ir Press­unn­ar á um­rædd­um tíma. Var því ekki unnt, sam­kvæmt Lands­rétti, að leggja til grund­vall­ar að hún hefði skert greiðslu­getu Press­unn­ar veru­lega.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert