Landsréttur staðfesti í dag að mestu leyti dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í fyrra þar sem kröfu þrotabús Pressunnar um að ríkið endurgreiddi því tæprar 71 milljónar króna skuld var hafnað. Ríkinu var gert að greiða þrotabúinu lítinn hluta upphæðarinnar, 1,5 milljónir króna með vöxtum.
Pressan átti vefmiðilinn Pressan.is og keypti svo stærstan hluta í DV, til viðbótar við fjölda landshlutablaða eins og Akureyri vikublað, Austurland, Suðra og Sleggjuna, auk vikublaða sem komu út á höfuðborgarsvæðinu.
Dómur Landsréttar var kveðinn upp í dag en þrotabú Pressunnar áfrýjaði hluta af stærra máli þangað úr héraði.
Annars vegar var um að ræða greiðslu að fjárhæð 1.599.049 krónur sem greidd var 13. janúar 2017, en bókuð inn á skuldir þrotabúsins hjá ríkinu þann 18. maí 2017, og hins vegar greiðslu að fjárhæð 69.188.500 krónur, sem greidd var 18. apríl 2017 en bókuð inn á skuldir ríkisins þann 18. maí 2017.
Í dómi Landsréttar var fallist á að fyrri greiðslan væri riftanleg á grundvelli laga um gjaldþrotaskipti. Varðandi seinni greiðsluna, sem fyrir lá að var innt af hendi af hálfu þriðja aðila, benti Landsréttur á að hún hefði aldrei borist Pressunni eða verið félaginu á annan hátt aðgengileg eða til ráðstöfunar.
Var því ekki talið að greiðslan hafi á neinn hátt rýrt eignir Pressunnar á umræddum tíma. Var því ekki unnt, samkvæmt Landsrétti, að leggja til grundvallar að hún hefði skert greiðslugetu Pressunnar verulega.