Sviptur ökuréttindum ævilangt í tíunda skipti

Um er að ræða 15. skipti síðan árið 2005 sem …
Um er að ræða 15. skipti síðan árið 2005 sem Guðmundur Andri hlýtur dóm. Hanna Andrésdóttir

Landsréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 2. febrúar yfir Guðmundi Andra Ástráðssyni fyrir að hafa ekið án réttinda undir áhrifum áfengis og fíkniefna.

Guðmundur var í héraði dæmdur í 12 mánaða óskilorðsbundið fangelsi og sviptingu ökuréttinda ævilangt og stendur dómurinn óraskaður eftir úrskurð Landsréttar.

Guðmundur áfrýjaði máli sínu árið 2018 til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna skipunar dómara við Landsrétt.

Um er að ræða 15. skipti síðan árið 2005 sem Guðmundur Andri hlýtur dóm fyrir brot gegn umferðarlögum, hegningarlögum, vopnalögum og lögum um ávana- og fíkniefni en síðast hlaut hann átta mánaða fangelsisdóm í Héraðsdómi Suðurlands og sviptingu ökuréttinda ævilangt. 

Mun þetta því vera í tíunda skipti sem hann er sviptur ökuréttindum ævilangt. Dæmdar fangelsisrefsingar hans eru samanlagt rúm sjö ár, allt saman óskilorðsbundið.

Játaði sök en bað um skilorð

Lögregla stöðvaði Guðmund við akstur um Grjótháls í Reykjavík í apríl 2020, þar sem hann ók undir áhrifum áfengis og fíkniefna.

Hann játaði sök en áfrýjaði dómnum og krafðist þess að refsingin yrði milduð og alfarið bundin skilorði. Landsréttur taldi ekki ástæðu til þess að milda dóminn.

„Ákærði hefur ekki lagt fram gögn sem gefa vísbendingar um að hagir hans séu að einhverju leyti breyttir svo að efni séu til að skilorðsbinda refsingu hans. Með hliðsjón af framangreindu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur,“ segir í dómnum.

Var honum því gert að greiða áfrýjunarkostnað málsins, 253.832 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar lögmanns, 235.600 krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert