Þjófkenndur í fyrsta skipti á ævinni

Bergsveinn Birgisson og Ásgeir Jónsson.
Bergsveinn Birgisson og Ásgeir Jónsson. Samsett mynd

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur fram að þessu lítið viljað tjá sig um fréttaflutning af meintum hugverkastuld og ásökunum Bergsveins Birgissonar, fræðimanns og rithöfundar. Hann hefur nú opnað sig um málið og segir síðustu daga hafa verið afar sérstaka þar sem hann hafi verið þjófkenndur í fyrsta skipti á ævinni.

Vildi lesa bók Bergsveins áður en hann brást við

„Ég hef ekki viljað bregðast við fyrr en ég hefði fengið ráðrúm til þess að lesa bók Bergsveins Birgissonar Leitin að svarta víkingnum og bregðast efnislega við þeim ásökunum sem hann hefur sett fram. Ég mun því fjalla ítarlega um málið síðar. Ég vil þó nefna nokkra hluti nú þegar,“ segir Ásgeir í pistli sem hann birti á Facebook-síðu sinni í dag.

Tilefni færslunnar eru ásakanir Bergsveins um líkindi milli hans eigin bókar Leitin að svarta víkingnum og nýútgefinnar bókar Ásgeirs, Eyjunnar hans Ingófls.

Seðlabankastjóri hefur þó áður vísað ásökunum Bergsveins á bug í stuttri yfirlýsingu en þrátt fyrir það var fyrirhuguðum fyrirlestri hans á vegum Miðaldastofu Háskólans frestað vegna málsins.

Bergsveinn hefur kært meint hugverkastuldur Ásgeirs til siðanefndar Háskóla Íslands og verður hún tekin fyrir á fundi nefndarinnar á mánudaginn næstkomandi.

Segir bók Bergsveins ekki hefðbundna sagnfræði

Ásgeir segir bók Bergsveins, Leitin að svarta víkingnum, ekki vera hefðbundna sagnfræði.

„Hún er það sem höfundur kallar sjálfur í formála „röksaga“ eða „ímyndun grundaða á þekkingu“. Þá eða eins og segir í eftirmála að verkið sé „formtilraun, viðleitni til að brúa bilið milli fræðimanns og rithöfundar og nota bæði heilahvelin samtímis. Útkoman er blendingur.“

Í því samhengi megi einnig halda því til haga að í ritdómi um Gunnar Karlsson ritaði í Sögu Tímarit Sögufélagsins árið 2019 séu gerðar athugasemdir við heimildanotkun og túlkanir bókarinnar og segir að ritverk af þessum toga séu „býsna ósambærileg við sagnfræði“, að sögn Ásgeirs.

„Ég hef ekki haft tíma til að kynna mér ritdóma um bókina á öðrum tungumálum.“

Ásgeir tekur þó sérstaklega fram að eftir að hafa lesið bók Bergsveins þyki honum hún mjög skemmtileg og upplýsandi um margt og að hans áliti „frábært framtak“ af hálfu Bergsveins.

Væri „heimskulegt“ að reyna slíkar kúnstir

Hann segir Eyjuna hans Ingólfs „veikburða tilraun“ af hans hálfu til að setja fram tilgátu um hvernig þjóðskipulag myndaðist á Íslandi og að hann fái ekki betur séð en að bækur hans og Bergsveins séu „ákaflega ólíkar“ bæði hvað varðar nálgun, umfjöllun og niðurstöður.

„Ég vil í lokin aðeins taka fram að ég hef aldrei áður verið vændur um stuld. Enda væri það ákaflega heimskulegt stöðu minnar vegna að reyna slíkar kúnstir með bók líkt og Leitina að svarta víkingnum sem var metsölubók á Íslandi.“

Þá segist hann heldur engan áhuga hafa á því að lýsa yfir eignarrétti á einu eða neinu sem tengist Landnámu.

„Þá bók á þjóðin öll saman.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert