Alvarleg bilun kom í ljós við reglubundið viðhald og prófanir á vél 2 í Nesjavallavirkjun. Í framhaldinu kom upp bilun í strengmúffu á sömu vél. Hefur vélin ekki verið í rekstri að neinu gagni frá 5. ágúst en stefnt er að því að ljúka viðgerð fyrir jól. Gangi það eftir hefur vélin ekki verið í rekstri í hálfan fimmta mánuð en áætlað viðhaldsstopp var tæpir tveir mánuðir.
Til að bæta upp þá framleiðslu sem vantað hefur upp á vegna vélar 2 á Nesjavöllum ákvað Orka náttúrunnar að færa áður skipulagt viðhald, sem átti að taka þrjár vikur, yfir á næsta ár.