Banaslysið á gatnamótum Gnoðarvogs og Skeiðarvogs í síðasta mánuði hefur verið rannsakað sem sakamál frá upphafi.
Þar ók strætisvagn á konu á sjötugsaldri með þeim afleiðingum að hún lést.
Rannsókn málsins miðar vel samkvæmt Guðmundi Páli Jónssyni lögreglufulltrúa og segist hann eiga von á því að málið fari fyrir ákærusvið fyrir áramót.
Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
„Þetta gæti heyrt undir manndráp af gáleysi,“ segir Guðmundur við blaðið.
Tæknideild lögreglunnar og Rannsóknarnefnd samgönguslysa hafa málið á sínu borði og er lítil vinna eftir hjá lögreglunni, að því er Guðmundur segir við Fréttablaðið. Hann segir það ákærusviðsins að meta hvort gefin verði út ákæra í málinu.