Breytingar verða í áhöfn Höfðingja, bókabíls Borgarbókasafns Reykjavíkur, nú um áramótin þegar Bragi Björnsson lætur af störfum eftir 40 ára úthald. Áður var Bjarni bróðir hans einnig bókabílsstjóri og var á ferðinni um borgina með bækur frá 1969 og hálfa öld eftir það.
Bræðurnir eru mörgum að góðu kunnir fyrir störf sín. Því má segja að talsverð tímamót verði í menningarsögu borgarinnar þegar Bragi bakkar bláa Scania-bílnum í stæði í síðasta sinn nú í lok desember.
Um 3.000 bækur eru kosturinn í Bókabílnum og þess gætt að úrvalið sé fjölbreytt. Barnabækur eru áberandi, enda lætur nærri að yngsti aldurshópurinn sé um helmingur þeirra sem í bílinn koma. Eldri borgarar séu hinn hópurinn enda miðist áætlun bílsins nokkuð við þessa hópa, með stoppi hjá til dæmis grunnskólum og þjónustumiðstöðvum aldraðra. Alls eru viðkomustaðirnir í borginni nærri 30 og eru í flestum hverfum.
„Með Bókabílnum er veitt mikilvæg þjónusta,“ sagði Bragi er Morgunblaðið tók hann tali nú í vikunni. Hann var þá síðdegis í Grafarholtinu eftir að hafa verið fyrr á deginum á Kjalarnesi og í Bústaðahverfi.
Bílinn er á vissum stöðum á ákveðnum tímum, til dæmis við Barnaskóla Hjallastefnunnar við Nauthólsveg og Waldorfskólann við Sóltún. Virkar þar sem skólasafn, svo mikilvæg sem slík eru fyrir allar menntastofnanir. Allt er eins og á að vera, nema hvað þetta safn er færanlegt!
„Þetta er líflegt starf og samskiptin við fólkið í borginni eru skemmtilegur hluti þess. Margir koma reglulega til okkar til að ná sér í lesefni, og sérstaklega er hópurinn í Laugarneshverfinu sterkur. Þar stoppum við meðal annars við Hrísateig og á fáum viðkomustöðum koma fleiri í bílinn,“ segir Bragi, sem jafnhliða bókakeyrslunni hefur verið með bróður sínum í rútubílaútgerð.
„Já, nú eru jólabækurnar komnar og mér sýnist fólk sem í Bókabílinn kemur hafa sama áhuga á bókum og allir aðrir. Arnaldur er vinsælastur og margir eru á biðlista eftir nýju bókinni hans,“ segir Bragi bókabílstjóri.