Dagur B. stakk sér til sunds í glænýrri laug

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri stakk sér til sunds í morgun …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri stakk sér til sunds í morgun í orðsins fyllstu merkingu. mbl.is/Óttar

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri opnaði formlega í dag nýja hverfismiðstöð í Úlfarsárdal. Af því tilefni skellti hann sér í sund í nýrri sundlaug með kátum krökkum og öðrum viðstöddum.

Í nýju hverfismiðstöðinni er að finna bæði bókasafn og sundlaug sem opnuðu við hátíðlega athöfn í dag. 

Í tilkynningu Reykjavíkurborgar um opnunina segir að miðstöðin sé ein stærsta byggingaframkvæmd sem Reykjavíkurborg hefur ráðist í. Heildarmannvirkið er um 18 þúsund fermetrar og nemur fjárfesting í verkefninu um 14 milljörðum króna.

Sameiginlegur inngangur er að sundlauginni og bókasafninu.
Sameiginlegur inngangur er að sundlauginni og bókasafninu. mbl.is/Óttar

„Það er nýjung að sundlaug og bókasafn deili afgreiðslu og verður því mikið líf í húsinu. Mjög góð aðstaða er fyrir gesti og gangandi og verður gaman að þróa þjónustuna og upplifa samganginn milli skóla, bókasafns og sundlaugar. Vel er hugað að aðgengismálum og þörfum hreyfihamlaða í allri byggingunni,“ segir í tilkynningunni.

Dalskóli er samrekinn leik- og grunnskóli, ásamt frístundaheimili. Í húsinu er einnig Félagsmiðstöðin Fellið sem hóf starfsemi í janúar 2021 og þjónustar börn og unglinga á aldrinum 10-16 ára. Í sumarbyrjun 2022 bætist svo íþróttahús knattspyrnufélagsins Fram við og síðar sama ár verður keppnisvöllur utanhúss vígður. 

Bókasafn með lengri opnunartíma

Bókasafnið í Úlfarsárdal verður sjöunda safn Borgarbókasafnsins og mun það sinna skólasafnþjónustu fyrir Dalskóla og er því fyrsta samrekna almennings- og skólasafn Reykjavíkurborgar.

Það er opið á opnunartíma sundlaugarinnar frá 6.30 til 22.00 og þá er gestum velkomið að nýta safnið, finna bók, skila bók eða bara njóta þess að slaka á.

Borgarbókasafnið í Úlfarsárdal er fyrsta safnið sem er með þetta langan opnunartíma. 

Í bókasafninu verður meðal annars fullbúið upptökuhljóðver, þar verður allt til taks sem þarf fyrir faglegar hljóðupptökur og geta gestir spreytt sig við að spila inn tónlist og söng eða stjórna upptökum. Eftir því sem tíminn líður munu áherslur safnsins þróast í takt við þarfir og óskir íbúa í Grafarholti og Úlfarsárdal og annarra gesta.

Gestum og gangandi bauðst að skoða hið nýopnaða bókasafn.
Gestum og gangandi bauðst að skoða hið nýopnaða bókasafn. mbl.is/Óttar

Dalslaug opnar

Dalslaug er áttunda almenningssundlaug Reykjavíkur, eins og segir í áðurnefndri fréttatilkynningu, en síðast opnaði Grafarvogslaug árið 1998.

Laugin er útbúin með 25 metra sex brauta útilaug ásamt heitum pottum, köldum potti, vaðlaug og eimbaði.

Einnig er innilaug sem nýtist vel til kennslu og æfinga en hingað til hafa börnin í Dalsskóla þurft að fara út fyrir hverfið til að stunda skólasund.

Gert er ráð fyrir stórri rennibraut sem kemur næsta haust.

Dalslaug verður opin virka daga frá klukkan 06:30 til klukkan 22:00 og frá klukkan 09:00 til klukkan 22:00 um helgar.

Nýja sundlaugin er með sex 25m brautum, heitum og köldum …
Nýja sundlaugin er með sex 25m brautum, heitum og köldum pottum. mbl.is/Óttar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert