Landsþekkti húðflúrlistamaðurinn Fjölnir Geir Bragason, einnig þekktur sem Fjölnir Tattú, er látinn 56 ára að aldri.
Frá þessu greinir bróðir hans, Ásgeir Bragason, á Facebook. Þar hefur fjöldi fólks minnst Fjölnis í kvöld og vottað fjölskyldu hans samúð sína.
Fjölnir fæddist 5. febrúar 1965. Hann hóf nám í forskóla í gamla Stýrimannaskólanum, fór síðan í Breiðagerðisskóla, Hlíðaskóla og tók stúdentspróf frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1990.
Hann útskrifaðist úr Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 2000, þar sem lokaritgerð hans fjallaði um húðflúr, en hann starfaði við greinina frá árinu 1995.
Faðir Fjölnis var Bragi Ásgeirsson myndlistarmaður, sem lést árið 2016. Blaðamaður Morgunblaðsins ræddi við feðgana um listina, lífið og fleira árið 2009.