Við lögðum af stað með það að skrifa raddir kvenna og ætlunin var að gera útvarpsleikrit um það sem kallað er erfiðar konur. Okkur langaði að skoða hvað geri konu erfiða, af hverju erfiðar konur eru til, hvort þær hafi haft mótandi áhrif á sögu okkar, hvort þær séu kannski bara í erfiðum samskiptum, hvað eru erfiðir karlar og svo framvegis. Við fundum að þarna var einhver kjarni sem var kona í mótstöðu,“ segja þær Ragnheiður Harpa Leifsdóttir og Sunna Dís Másdóttir þegar þær eru spurðar um tilurð skáldsögunnar Olíu, en þær eru tvær þeirra sex kvenna sem eru höfundar hennar. Hinar eru Þórdís Helgadóttir, Þóra Hjörleifsdóttir, Melkorka Ólafsdóttir og Fríða Ísberg. Þessar sex konur eru ekki óvanar að vinna saman, þær kalla sig Svikaskáld og hafa áður gefið út þrjú ljóðverk sem þær skrifuðu í sameiningu sem hópur.
Olía geymir sögur af sex konum og hverja þeirra skrifar ein kona úr Svikaskáldum.
„Við byrjuðum á að skrifa nafnlausar raddir og við skiptum með okkur konum eftir aldri, ég skrifa til dæmis um elstu konuna, Gerði, sem er fullorðin kona og bókin hefst á sögu hennar,“ segir Sunna og bætir við að allar persónur sem á eftir koma tengist með einum eða öðrum hætti.
„Aldur þessara kvenna nær nánast yfir alla ævi konu og þá kviknaði löngun hjá okkur til að spanna vítt og breitt svið,“ segir Sunna.
Ragnheiður Harpa segir að þær í Svikaskáldum hafi unnið þessa skáldsögu eins og þær hafa gert með ljóðabækurnar.
„Við deilum ört hver með annarri því sem við erum að skrifa meðan á sköpunarferlinu stendur. Þá förum við að fá einhverja tilfinningu og við þreifuðum okkur áfram í áttina að röddum þessara kvenna. Þá fóru að koma í ljós fleiri og fleiri tengingar milli þeirra, sumar komu okkur jafnvel á óvart. Við hittumst reglulega til að ræða saman og þegar skrifin voru sem hráust lásum við upp hver fyrir aðra, þá fengu hinar hugmyndir líka sem batt þetta saman og gerði að skáldsögu. Við fórum líka í nokkrar ferðir, dvöldum saman í fallegu rými, elduðum góðan mat og skrifuðum eftir skeiðklukku og deildum hráa gumsinu sem út úr því kom. Þá er allt opið í alla enda og það býður upp á allskonar tengingar og snertifleti hjá þessum ólíku konum sem þykja ,,erfiðar“ af því þær eru ekki nógu þægar, meðfærilegar eða uppfylla ekki kröfur samfélagsins um að vera duglegar, fórnfúsar, þolinmóðar, umburðarlyndar og svo framvegis.“
Sagan nær utan um mörg ólík hlutverk kvenna og raunveruleika, að vera móðir, dóttir, systir, vinkona, maki. Á ýmsu gengur í þeim samböndum, á einum stað segir t.d. dóttir að mamma hennar sé tilfinningaokurlánari og á öðrum stað segir af konu sem finnst heimurinn speglast í grindarbotninum, svo fátt eitt sé nefnt.
„Okkur fannst heillandi hvað konur fara í gegnum mörg hlutverk á æviskeiðinu og þau eru alltaf að breytast, dýpka á einum stað en grynnka á öðrum,“ segir Sunna og Ragnheiður Harpa bætir við að í bókinni sé komið inn á ýmislegt sem þjaki margar konur.
„Eilíft samviskubit, óttinn við berskjöldun, sjálfstýring í lífinu, innri og ytri mótstaða, að skammast sín fyrir holdafarið, að bæla næmni og reyna að standa undir væntingum samfélagsins. Sífellt eru verið að ætlast til að konur séu einhvern veginn, hagi sér á ákveðinn hátt og fari ákveðnar samþykktar leiðir.“
Sunna bætir við að konur leggi oft mikið á sig til að reyna að þröngva sér inn í einhvern kassa sem hentar þeim alls ekki.
„Þessi undirgefni er enn svo rík í konum held ég. Okkur fannst spennandi að velta fyrir okkur hvað gæti orðið ef þær sprengja kassann og henda því spýtnabraki til hliðar.“
Ragnheiður Harpa segir að sér finnist ansi miklar kröfur í nútímasamfélagi vera gerðar til fjölskyldna.
„Þessi vinnustaðamenning sem við lifum við í dag er ekki manneskjuleg, þar sem börn eiga að vera fullan vinnudag í gæslu og eftir það eiga foreldrar eftir að kaupa í matinn, elda, baða, þrífa og sinna öllum. Þetta eru óraunhæfar kröfur, sérstaklega gagnvart konunni því hún tekur það kannski oftar á sig. Á sama tíma eiga þær að vera með flatan maga, elda besta mat í heimi og gera allt frá grunni. Tilfinningarófið getur verið allskonar hjá mæðrum og við eigum ekki að sýna börnunum okkar eða samfélaginu alltaf einhverja glansmynd af hamingju, heldur leyfa þeim að sjá inn í hráleikann og rótarkerfið. Þetta tilfinningaróf sem við búum yfir verður svo einsleitt í umhverfi glansmynda á samfélagsmiðlum. Við erum í bókinni að sýna inn í kjarna þessara sex kvenna sem við segjum sögur af, þetta er smá leiftur, og þar sjáum við allt, gleði, ólgu, samviskubit, ást, reiði og fleira.“
Í bókinni er drepið á ýmsum málum í samtímanum, til dæmis áformum um betri heim og hræsni þeirra sem mótmæla loftslagsbreytingum og njóta á sama tíma þægilega, kolefnisríka millistéttarlífsins á Íslandi. Einnig fær lesandi að sjá að hluta til hvað er á bak við tilfinningalegt sambandsleysi fólksins í sögunum, hvort sem það er maki, móðir, afkvæmi, systir eða vinkona.
„Fólk brynjar sig kannski gagnvart þeim sem standa þeim næst og hafa þar með valdið til að særa,“ segir Sunna og Ragnheiður Harpa bætir við að í samfélagi okkar sé lítið talað um sambandsleysi innan nánustu fjölskyldu, það sé mikið tabú og nánast bannað.
Þær segja að Svikaskáld séu með nýtt verk í vinnslu, en að þar sé allt á frumgums-stigi.
„Við erum með frumsúpu í potti og hrærum í. Einmitt það er fallegt og spennandi við þessa samvinnu, við vitum ekki hvert við erum að fara. Svona samvinna er mikil æfing í trausti og Svikaskáld er orðin þó nokkuð þroskuð vera. Það er extra skemmtilegt að vera sex saman í þessu brasi, við þekkjum hver aðra orðið svo vel. Við erum alltaf að vinna að því í smiðjunum okkar og ljóðakvöldunum að taka hugmyndina um snilling niður af stöplinum, af því að í kringum alla er alltaf einhver hópur sem á þátt í því sem manneskjan gerir. Margar manneskjur vinna með einum eða öðrum hætti saman að því að skapa eitthvað, hvað sem það er.“