Þóttist vera jólasveinninn

Vilborg Arna Gissurardóttir hefur eytt tveimur jólum á Suðurskautinu. Ein …
Vilborg Arna Gissurardóttir hefur eytt tveimur jólum á Suðurskautinu. Ein jólin hitti hún þar mann í tjaldi og þóttist hún þá vera jólasveinninn.

„Aldrei hefði mig grunað hvað íslandið í suðri, sjálft suðurskautið, ætti eftir að leika stórt hlutverk í mínu jólahaldi sem fullorðin manneskja. Sjálf hef ég eytt tvennum jólum á ísnum,“ segir Vilborg Arna Gissurardóttir pólfari og ævintýramaður með meiru. Vilborg rifjar upp fyrri jól sín á suðurskautinu. 

Hélt að hann heyrði raddir

„Á undan mér á ísbreiðunni var maður að nafni Aron sem kom frá hinni sólríku Kaliforníu. Veðurvani Íslendingurinn ferðaðist aðeins hraðar yfir og nú var komin sú stund að ég myndi ná honum. Ég hafði verið að velta því fyrir mér hvort ég myndi hitta hann og heilsa eða leggja lykkju á leið mína til að forðast samskipti. Ég vissi ekkert hvort hann myndi vilja hitta mig á annað borð,“ segir hún.

„Klukkan var akkúrat sex á aðfangadag þegar ég kom auga á hann. Allt í einu var þetta engin spurning og ég skíðaði beinustu leið að tjaldinu hans. „Aaaarooon!“ gólaði ég upp í vindinn en hann heyrði ekkert. Ég hélt áfram eins og ég ætti lífið að leysa en alltaf gleypti vindurinn orðin mín. Þegar ég var komin alveg upp að tjaldinu rann á mig stríðnispúki og ég gala í gegnum örþunnan tjaldvegginn: „Ho, ho, ho, this is Santa.“ Aron stóð ekki á sama, honum snarbrá og hélt hann væri farinn að heyra raddir. Fyrst gerðist ekkert og ég sá svolítið eftir grikknum og kallaði mjóróma: „Aron, this is Villa.“

Jólatjaldbúðir og hreindýrakássa

„Eftir dágóða stund var kominn tími á mig að halda áfram, við kvöddumst og ég skíðaði góðan spöl áður en ég sló upp jólatjaldbúðum. Þetta kvöld gerði ég vel við mig með dýrindis hreindýrakássu, malti og appelsíni, smá „trít“ og símtöl heim í gegnum gervihnattasímann sem var jafnframt stútfullur af jóla-sms-um. Ég var svo sannarlega ekki ein í heiminum þótt ég væri ein í tjaldinu á ísbreiðunni.“

Vilborg tók með malt og appelsín á Suðurpólinn og átti …
Vilborg tók með malt og appelsín á Suðurpólinn og átti notaleg jól í tjaldi sínu.

Nánar má lesa um eftirminnileg jól Vilborgar og annarra þjóðþekktra einstaklinga í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert