Magnús Jóhannesson, stjórnarformaður Úrvinnslusjóðs, harmar að íslenskt plast hafi ekki komist í réttan farveg eftir að sænska fyrirtækið Swerec tók við því. Hann vonar að um sé að ræða einsdæmi og segir að almenningur eigi að geta treyst því að sá úrgangur sem það flokkar sé endurunnið eða endurnýtt.
Greint var fyrst frá málinu í ítarlegri grein Stundarinnar þar sem blaðamaður þeirra ásamt ljósmyndara fann íslenskt plast í því sem líkja má við hafsjó af plasti í vöruskemmu í Suður-Svíþjóð. Þegar höfðu íslenskir neytendur og fyrirtæki borgað fyrir endurvinnslu á plastinu en fyrirtækið sem tók við því, Swerec, kom því ekki í réttan farveg.
„Það sem að auðvitað við vitum ekki um er það hvað það er mikið magn sem þarna er, hvað þetta er stór hluti af því plasti sem var sent var frá Íslandi til Swerec á árinu 2016,“ segir Magnús í samtali við mbl.is
Ábyrgðin liggi hjá Swerec og þau hjá Úrvinnslusjóði muni krefjast úrbóta. „Við munum gera kröfu til þeirra um það að þeir taki allavega þann hluta af þessu plasti sem er frá Íslandi og komi því í þann farveg sem samið var um á þeim tíma og ætlast var til,“ segir hann.
Magnús segist vona að um sé að ræða einsdæmi og vill að fólk haldi áfram að flokka.
„Ég ætla að vona það að þetta sé einstakt atvik. Almenningur á að geta treyst því að sá úrgangur sem menn eru að flokka á sínum heimilum fari í eðlilegan farveg, sé endurunnin eins og hægt er og endurnýttur það sem ekki er hægt að endurvinna.“ Hann hvetji því fólk til þess að halda áfram að flokka.
„Það er ljóst að núna þegar við erum að fara að leggja meiri áherslu á hringrásarhakerfið og aukna endurvinnslu, munum við gera meiri og öruggari kröfur um að við fáum réttar upplýsingar frá þessum fyrirtækjum um það hvað raunvörulega fer mikið í endurvinnslu og hversu mikið fer raunvörulega í annað,“ segir Magnús.
Endurnýting á plasti sé af öðrum toga en endurvinnsla, til að mynda brennsla til orkunýtingar.
„Hluti af því plasti sem við notum í dag er lítt endurvinnanlegt,“ segir hann og nefnir dæmi um það að framleiðendur bæti litarefni og aðrar blöndur í plastumbúðir en þá er ekki hægt að endurvinna það. Það sé nýtt í endurnýtingu.
„Það er eitthvað sem þarf að breytast á næstu árum. Framleiðendur fari meira að hugsa um að þeirra framleiðsla sé endurvinnanleg.“