Karl prins sagði já

Guðrún Elín Ólafsdóttir, Gunnella, með bókina þar sem sjá má …
Guðrún Elín Ólafsdóttir, Gunnella, með bókina þar sem sjá má mynd hennar og ávarp Karls Bretaprins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mynd eftir myndlistarkonuna Guðrúnu Elínu Ólafsdóttur, öðru nafni Gunnellu, prýðir fyrstu opnu nýútgefinnar alþjóðlegrar bókar um umhverfismál, It's Up to Us: Building a Brighter Future for Nature, People & Planet, sem komin er í sölu á amazon.com og hugsuð sem kennslubók í grunnskólum í enskumælandi löndum og víðar.

Karl Bretaprins kemur að útgáfunni og samþykkti ásamt dómnefnd birtingu myndar Gunnellu, en formáli hans er á sömu opnu. „Þetta er mjög spennandi og mikill heiður,“ segir listakonan, en 25 listamenn hvaðanæva úr heiminum voru valdir til þess að myndskreyta bókina.

Gunnella hefur haldið margar einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga. Hjartaheill og SOS-barnaþorpin hafa gefið út jólakort með myndum eftir hana og verk hennar hafa prýtt konfektkassa frá Nóa-Síríusi.

Beðin um mynd af prinsinum

Bandaríski rithöfundurinn Bruce McMillan hefur skrifað tvær bækur út frá myndum hennar. New York Times valdi aðra þeirra, The Problem with Chicken, Hænur eru hermikrákur, í þýðingu Sigurðar A. Magnússonar, eina af tíu best myndskreyttu barnabókunum 2005. Gunnella átti verk á farandsýningu í London, Brussel, Stokkhólmi og í byggingu Sameinuðu þjóðanna í New York í kjölfar myndlistarsamkeppni Winsor og Newton árið 2000, en Karl Bretaprins var verndari keppninnar, í valnefnd mynda sem komust áfram og kemur nú aftur við sögu.

Bókinni er skipt upp í 25 kafla og hvert þema fjallar um ákveðin málefni í sambandi við umhverfismál og sjálfbærni. Einn listamaður var valinn til þess að myndskreyta hvert þema. Gunnella valdi þemað „People and Garden“, fólk og garður, og var orðið við þeirri ósk.

Hún er þekkt fyrir þjóðlegar myndir af bústnum konum og hænum í íslensku umhverfi og segist hafa haldið að hún ætti að mála í sínum stíl, hafi gert það og sent útgáfunni. Þá hafi hún verið spurð hvort hún gæti ekki málað mynd af Karli Bretaprins að gróðursetja tré í hallargarði konungsfjölskyldunnar ásamt barnabörnum sínum og hundum fjölskyldunnar. Ljósmynd af garðinum hafi fylgt með, þar sem hafi sést í höllina, gosbrunn og fleira. 

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út 11. desember. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert