Atvinnuleysi óbreytt milli mánaða

Skráð atvinnuleysi náði hámarki í janúar sl. þegar það var …
Skráð atvinnuleysi náði hámarki í janúar sl. þegar það var 11,6%. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar var skráð atvinnuleysi í nóvember 4,9% af áætluðum fjölda fólks á vinnumarkaði og var óbreytt frá því í október. 10.155 manns voru á atvinnuleysisskrá í lok nóvember og fækkaði um 28 í mánuðinum.

Fækkunin kom einungis til á höfuðborgarsvæðinu líkt og var í október. Atvinnuleysi eykst yfirleitt á milli október og nóvember þannig að líta má á óbreytt atvinnuleysi með jákvæðum hætti, að því er fram kemur í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

Skráð atvinnuleysi náði hámarki í janúar sl. þegar það var 11,6%. Atvinnuleysið hefur því minnkað um 6,7 prósentustig frá því í janúar. Í nóvember 2020 var almennt atvinnuleysi 9% og það hefur því minnkað um 4,1 prósentustig á einu ári. 

Vinnumálastofnun spáir því að atvinnuleysi verði svipað í desembermánuði og var í nóvember. 

Almennt atvinnuleysi jókst alls staðar á landinu nema á höfuðborgarsvæðinu milli október og nóvember. Atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu minnkaði um 0,1 prósentustig milli mánaða en jókst um 0,1-0,5 prósentustig á öðrum svæðum, mest á Norðurlandi eystra um 0,5 prósentustig.

Atvinnuleysi er eftir sem áður langmest á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu, en það hefur nú verið undir 10% á Suðurnesjum í fjóra mánuði, en hæst fór það í 24,5% í janúar 2021. Atvinnuleysi kvenna á Suðurnesjum var þó enn yfir 10% í nóvember, var 10,4%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert