Samningur um kaup Reykjavíkurborgar á húsnæði Faxaflóahafna í Hafnarhúsinu var undirritaður í dag af Degi B. Eggertssyni borgarstjóra og Magnúsi Ásmundssyni hafnarstjóra Faxaflóahafna.
Þetta kemur fram í tilkynningu Reykjavíkurborgar.
Samningurinn staðfestir kaup borgarinnar á Hafnarhúsinu í heild sinni en hluti þess verður nýttur undir nýtt safn Nínu Tryggvadóttur ásamt viðbótarrými fyrir Listasafn Reykjavíkur.
Seinna mun borgin efna til hugarflugs og samráðs vegna útfærslu á Hafnarhúsi. Leitað verður að viðhorfum og hugmyndum til undirbúnings hönnunarsamkeppni þar sem útfærðar verða breytingar á Hafnarhúsi til að rúma Safn Nínu Tryggvadóttur, stækkun Listasafns Reykjavíkur og til að skapa rými fyrir aðra notkun hússins í þágu listsköpunar.