Borgin eignast Hafnarhúsið í heild sinni

Samningurinn handsalaður í Hafnarhúsinu í dag. Frá vinstri Magnús Ásmundsson, …
Samningurinn handsalaður í Hafnarhúsinu í dag. Frá vinstri Magnús Ásmundsson, hafnarstjóri, Guðrún Kristjánsdóttir, myndlistarkona, fulltrúi Unu Dóru Copley dóttur Nínu Tryggvadóttur og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samningur um kaup Reykjavíkurborgar á húsnæði Faxaflóahafna í Hafnarhúsinu var undirritaður í dag af Degi B. Eggertssyni borgarstjóra og Magnúsi Ásmundssyni hafnarstjóra Faxaflóahafna.

Þetta kemur fram í tilkynningu Reykjavíkurborgar.

Samningurinn staðfestir kaup borgarinnar á Hafnarhúsinu í heild sinni en hluti þess verður nýttur undir nýtt safn Nínu Tryggvadóttur ásamt viðbótarrými fyrir Listasafn Reykjavíkur.

Undirbúa hönnunarsamkeppni

Seinna mun borgin efna til hugarflugs og samráðs vegna útfærslu á Hafnarhúsi. Leitað verður að viðhorfum og hugmyndum til undirbúnings hönnunarsamkeppni þar sem útfærðar verða breytingar á Hafnarhúsi til að rúma Safn Nínu Tryggvadóttur, stækkun Listasafns Reykjavíkur og til að skapa rými fyrir aðra notkun hússins í þágu listsköpunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert