Eva Hauksdóttir, dóttir konu sem lést eftir að hafa verið send í lífslokameðferð án sýnilegrar ástæðu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) árið 2019, segir að fullyrðingar í málaskjölum frá lækni, sem er með réttarstöðu sakbornings, um að uppi sé „mikill misskilningur“ í málinu vera „algjörlega út úr kortinu.“
Segir Eva að uppi sé rökstuddur grunur um refsiverð brot sem leiddu til dauða þar sem læknirinn hafi verið ábyrgur fyrir meðferð sjúklings og að sú rannsókn hafi nú verið til meðferðar lögreglu í meira en ár í kjölfar ítarlegrar skoðunar embættis landlæknis, álitsgerð og sviptingar starfsleyfis.
Rúv greindi um helgina frá því læknirinn, Skúli Gunnlaugsson, hefði mótmælt kröfu lögreglustjórans á Suðurnesjum um farbann á sínum tíma og sagði hann í þeim gögnum að „mikill misskilningur“ væri uppi í málinu. Hefði líknandi meðferð lengi verið skráð sem lífslokameðferð hjá HSS. Þá væri allur grunur í þessu máli órannsakaður og gagna hefði verið aflað án aðkomu hans og slík gögn hefðu ekki sönnunargildi.
Eva ritaði grein þar sem hún gagnrýndi framsetningu Skúla og vísar meðal annars í álitsgerð landlæknis þar sem komi fram að skýringar hans um að lífslokameðferð og líknarmeðferð sé ruglað saman fái ekki stuðning í gögnum málsins. Gagnrýnir hún jafnframt mat Skúla að gögn sem ekki hafi verið lögð fyrir sakborning hafi ekkert sönnunargildi. Þannig sé því jafnan háttað með lögreglurannsóknir.
Síðan málið komst í hámæli hefur sjónum verið beint að því að Skúli starfi í dag með endurútgefið takmarkað leyfi og sé í endurmenntunar- og þjálfunarferli á Landspítalanum, en þar starfar hann undir eftirliti sérfræðinga spítalans.
Eva gagnrýnir þetta fyrirkomulag í grein sinni og spyr hvað væri gert með grunaða barnaníðinga. „Væri ekki líka alveg upplagt að senda grunaða barnaníðinga í endurhæfingu sem starfsmenn leikskóla? Undir eftirliti að sjálfsögðu.“