„Gott að nefndin taki þetta fyrir“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Úr því sem komið er þá held ég að það sé bara gott að nefndin taki þetta fyrir,“ segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri í samtali við mbl.is um niðurstöðu siðanefndar Háskóla Íslands að taka fyrir ásökun Berg­sveins Birg­is­son­ar um ritstuld.

Ásgeir segir siðanefnd hafa sent sér bréf og óskað eftir hans hlið að málinu. Hann segist rétt vera byrjaður á vinnu við að útskýra sína hlið. Þá sé hann einnig vera byrjaður á að lesa bók Bergsveins Leit­in að svarta vík­ingn­um.

Inntur eftir viðbrögðum er kemur að bók Bergsveins segist Ásgeir ítreka að um sé að ræða gjörólíkar bækur með ólíkar niðurstöður. „Ég held að allir sem hafa lesið bókina sjá það,“ segir Ásgeir en bókin Eyj­an hans Ing­ólfs kom út fyrir stuttu. 

Ekki fræðirit heldur bók fyrir almenning

Spurður hvort hann geri athugasemd við það að siðanefnd HÍ taki fyrir málið þegar hvorki Ásgeir né Bergsveinn starfa fyrir skólann segir Ásgeir það vera athyglisverða spurningu en ekki vilja tjá sig um það að öðru leyti. Hann ítrekar að bók hans sé ekki hugsuð sem fræðirit heldur bók fyrir almenning. 

Skúli Skúlason, formaður siðanefndar, sagði í viðtali við Morgunblaðið í dag að meðal þess sem nefndin myndi leggja mat á í dag er hvort Ásgeir heyri enn und­ir há­skól­ann.

Ásgeir starfaði við hag­fræðideild Há­skóla Íslands frá ár­inu 2004 og var þar deild­ar­for­seti frá ár­inu 2015. Hann tók við embætti seðlabanka­stjóra 20. ág­úst 2019. 

Viðurkennd kenning

Meðal þess sem deilt er um er kenning um rostungaveiði á Íslandi á landnámsöld. 

„Ég taldi að hér væri um viðurkennda kenningu að ræða sem margir hafa sett fram áður og því kenning sem engin ætti í raun og veru. Ég var með bókinni alls ekki að lýsa yfir eignarhlut á þeirri kenningu með einum eða neinum hætti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert