Ingu Sæland, formanni Flokks fólksins, var heitt í hamsi í ræðustól Alþingis þegar þingmönnum gafst færi á að bera upp óundirbúnar fyrirspurnar við ráðherra ríkisstjórnarinnar.
Inga gerði að umtalsefni sínu stöðu þeirra sem fátækastir eru í landinu og spurði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að því hvort til stæði að gefa þeim hópi óskerta uppbót þessi jólin.
Hún kom í ræðustól þegar Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hafði nýlokið skylmingum sínum við forsætisráðherra um málefni öryrkja og ellilífeyrisþega og sagði:
„Maður kemur hérna næstum því með tárin í augunum og grátstafinn í kverkunum eftir það sem ég var að heyra hér á undan.“
Því næst hóf Inga eldmessu sína og beindi meðal annars umræðunni að því að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hafi sagt að uppstokkun ráðherrastóla og skipting verkefna innan stjórnarráðsins hafi kostað tugi ef ekki hundruð milljóna.
Hún spurði því hvort ekki væri hægt að sjá á eftir slíkum upphæðum til þess að þeir sem fátækastir eru geti átt áhyggjulaust jólafrí.
Katrín tók næst til máls og svaraði Ingu því að henni þætti mikilvægt að ráðast í heildurendurskoðun á almannatryggingakerfinu svo að betur mætti gera við þá sem minnst eiga í samfélaginu.
Inga tók aftur til máls og lét sér fátt um finnast. Henni þótti ekki mikið til orða Katrínar koma og sagði hana ekki hafa svarað spurningu sinni sem hún ítrekaði:
„Ég er að tala um jólin núna,“ sagði Inga. „Ég er að tala um hvort fátækt fólk og öryrkjar geti keypt sér eitthvað annað heldur en að hafa alltaf hafragraut og hrísgrjónagraut í matinn. Ég er að tala um hvort sé hægt að stíga niður á jörðina til hinna, sem hafa það bágt, og aðeins slitið út fyrir eigin velferð og eigin velsæld og eigin peningaveski og komið til móts við fólk sem er að biðja um hjálp okkar núna.“
Katrín tók þá aftur til máls og svaraði Ingu öðru sinni. Sagði hún meðal annars að hún væri ánægð með að Inga væri sammála henni um að ráðast þyrfti í heildarendurskoðun almannatryggingakerfisins. Hún sagði einnig að það væri skýr vilji stjórnvalda að koma til móts við þá sem verst standa, eins og fjárlagafrumvarpið endurspeglaði.
Þannig svaraði Katrín ekki spurningu Ingu með beinum hætti, enda brást Inga við með því að kalla í lok ræðu hennar: „Og svarið var?“
Því ansaði forsætisráðherra ekki.