Jónína Hauksdóttir var í dag kjörin varaformaður Kennarasambands Íslands. Hún mun taka við embættinu af Önnu Maríu Gunnarsdóttur á þingi KÍ sem fer fram í apríl á næsta ári.
Þetta kemur fram í tilkynningu KÍ.
Rafrænni kosningu lauk í dag en átta félagsmenn KÍ buðu sig fram í embættið og voru alls 3.575 atkvæði greidd. Hlaut Jónína samtals 1.372 atkvæði eða rúmlega 38%.
Ásamt Jónínu voru í framboði þær Guðný Maja Riba, Hjördís B. Gestsdóttir, Kristín Björnsdóttir, Lára Guðrún Agnarsdóttir, Silja Kristjánsdóttir, Simon Cramer Larsen og Þórunn Sif Böðvarsdóttir.
Frambjóðandinn með næstflest atkvæði var Guðný Maja Riba en hún hlaut alls 553 atkvæði eða rúmlega 15%.
Kosning um formannsembættið fór fram í síðasta mánuði en þá fór Magnús Þór Jónsson með sigur úr býtum. Alls buðu fjórir sig fram í þá stöðu.