Kassakerfið hrundi vegna styrkingar netvarna

Fjórar verslanir Hagkaupa lokuðu um stund vegna bilana í kassakerfi …
Fjórar verslanir Hagkaupa lokuðu um stund vegna bilana í kassakerfi búðanna í gær. Kristinn Magnússon

Bilanir sem komu upp í kassakerfi verslana Hagkaupa í gær tengjast beint viðbrögðum fyrirtækisins vegna viðvörunar sem öryggisfyrirtækið Syndis sendi frá sér um helgina. Vegna vinnu við að styrkja varnir tölvukerfisins myndaðist ofálag á vefþjóna kerfisins með þeim afleiðingum að það gaf sig.

Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaupa, segir í samtali við mbl.is að venjan sé sú að tölvukerfið sé látið ósnert vegna jólanna. „Við erum í raun með viðgerðarstopp á tölvukerfinu okkar vegna jóla.“

Vegna viðvörunarinnar sem öryggisfyrirtækið Syndis sendi frá sér á laugardag hafi þó verið ákveðið að bregðast þyrfti skjótt við. Syndis hvatti þá íslensk fyrirtæki og stofnanir til þess að fara yfir hugbúnaðinn sinn vegna veikleika í kóðasafni sem notaður er í hugbúnaði tölvukerfa mjög víða.

„Þessi aðvörun varð til þess að við vorum alla helgina að bregðast við og styrkja varnirnar okkar. Þá varð bara yfirálag á kerfinu og vefþjónunum. Það eru ýmsar djúpar skýringar á því hvers vegna álagið eykst og hvort það eigi að geta gerst, en stutta útgáfan er sú að við vorum að bæta varnirnar, þá eykst álag og þá þurfti að stoppa kerfið og endurræsa það.“

Sigurður segir þó að allt sé komið í lag núna og því gerir hann ekki ráð fyrir því að málið vindi meira upp á sig. „Við teljum að við séum aftur komin á beinu brautina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert