Lögregla skoðar valkröfu meintra góðgerðasamtaka

Lögregla hefur nú mál félagsins Vonarneista til skoðunar en um helgina fékk fjöldi fólks valkröfu upp á 2.490 krónur í heimabanka sinn frá félaginu. 

Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson, kynningarfulltrúi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, gat ekki upplýst mbl.is um hvers eðlis rannsókn málsins væri og segir of snemmt að segja til um niðurstöðu þess. 

Dv.is greindi fyrst frá því að Vonarneisti gefi sig út fyrir að vera góðgerðafélag fyrir heimilislausa en litlar upplýsingar liggja fyrir um starfsemi félagsins. 

Á vef Skattsins segir að Fannar Daníel Guðmundsson sé stjórnarformaður félagsins. Ekki náðist í Fannar við vinnslu þessarar fréttar.

Skjákot af heimasíðu félagasamtakanna.
Skjákot af heimasíðu félagasamtakanna. Skjáskot

Í viðskiptum við Sparisjóð Höfðhverfinga 

Samkvæmt heimildum mbl.is er félagið í viðskiptum við Sparisjóð Höfðhverfinga en Jón Ingvi Árnason sparisjóðsstjóri sagðist ekki geta tjáð sig í samtali við mbl.is og benti á lögreglu varðandi málið.

Í grein á vef Landsbankans segir öll fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar geta stofnað valkröfur á hvern þann sem hefur íslenska kennitölu, hafi þeir gert innheimtusamning við sinn viðskiptabanka. 

Þá segir að í slíkum samningum eru ákvæði um skilmála sem viðkomandi þarf að uppfylla. 

„Komi í ljós að valkrafan hafi vísvitandi verið stofnuð sem hefðbundin krafa, eða að eitthvað annað gefur til kynna að hún hafi verið stofnuð ranglega eða með röngum hætti, má beina kvörtunum til útgefanda kröfunnar eða til viðkomandi banka,“ segir í greininni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert