Neytendasamtökin stefna bönkunum

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. mbl.is/Eggert

Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankanum voru í liðinni viku birtar samtals sex stefnur í Vaxtamálinu svokallaða, er varða skilmála og vaxtaákvarðanir lána með breytilegum vöxtum. Í þessari viku verða málin gegn Arion banka og Landsbankanum þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur en mál Íslandsbanka í Héraðsdómi Reykjaness. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Neytendasamtökunum.

Þar segir enn fremur að lögfræðistofa Reykjavíkur reki málin fyrir hönd neytenda. Neytendasamtökin standa straum af kostnaði við málareksturinn og njóta til þess veglegs styrks frá VR, en munu einnig sækja í nýjan málskotssjóð Samtaka fjármálafyrirtækja tengdum úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki.

Neytendasamtökin tilkynntu um ætlan sína í maí síðastliðnum og óskuðu eftir þátttöku almennra lántaka. Viðbrögð fóru fram úr björtustu vonum og hafa nú rúmlega 1.500 manns skráð sig til þátttöku vegna á sjötta þúsund lána,“ kemur fram í tilkynningunni.

Gagnaöflun hefur gengið misvel vegna umfangs málsins, en einnig standa enn yfir viðræður við Íslandsbanka og Arion banka um með hvaða hætti nauðsynleg gögn verði afhent svo hægt sé að sannreyna útreikninga bankanna, eða reikna út mögulega oftöku þeirra.

Ákveði bankarnir að hafna gagnafhendingu eða tefja hana frekar en orðið er telja Neytendasamtökin það skýr brot á lögum um persónuvernd, en þar segir að almenningur eigi skýlausan rétt á að fá afhent þau gögn sem fyrirtæki hafa unnið með og um þá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert