Ólíklegt að herða þurfi aðgerðir yfir jólin

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Yfirstandandi bylgja kórónuveirufaraldursins er hægt og bítandi á niðurleið og því ólíklegt að herða þurfi sóttvarnareglur yfir hátíðarnar. Þetta segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, í samtali við mbl.is.

„Svo þurfum við að sjá hvort þetta fari aftur upp í dag og á morgun eins og það hefur gjarnan gert,“ segir hann.

Staðan á Landspítalanum oft verið verri en nú

Þrátt fyrir að um 100-120 smit hafi greinst innanlands síðastliðna daga hefur staðan á Landspítalanum oft verið verri en nú, að sögn Þórólfs.

„Helgin var allsæmileg á spítalanum og á meðan svo er þykir mér ekki ástæða til að herða aðgerðir. Þessar aðgerðir sem eru í gildi núna virðast halda í horfinu og ef eitthvað er þá er smitum að fækka og kúrfan á leið niður.“

30 greinst með Ómíkron

Tæplega 30 hafa greinst með Ómíkron-afbrigði veirunnar hér á landi, að því er Þórólfur greindi frá í samtali við RÚV í dag. Inntur eftir því segist hann enn bíða afrekari upplýsinga um Ómíkron-afbrigði veirunnar en þær upplýsingar ættu að liggja fyrir í þessari viku.

„Við vitum bara að þetta afbrigði er í mikilli sókn og er að greinast í auknum mæli í nágrannalöndum okkar, sérstaklega í Danmörku.“

Útbreiðsla hins nýja afbrigðis sé þó sennilega meiri en menn telja og því ástæða til að halda að það sé meira smitandi en Delta-afbrigðið.

„Það er þó enn óljóst hvort það valdi alvarlegri sjúkdómi. Við höfum ekki fengið tilkynningar um það ennþá, sem betur fer.“

Þá séu niðurstöður um virkni bólusetninga gagnvart hinu nýja afbrigði væntanlegar á næstunni. Vísbendingar séu þó um að þrír skammtar af bóluefni gefi betri raun en tveir.

„Örvunarbólusetning veitir kannski ekki alveg jafnmikla vörn gegn nýja afbrigðinu eins og það gerir gegn Delta-afbrigðinu en það virðist gera gæfumuninn. Við búumst við að fá betri upplýsingar um það í þessari viku.“

Segir fulla ástæðu til að endurskoða smitgát

Þórólfur greindi frá því í samtali við mbl.is í dag að börnum á aldrinum 5-11 ára verði boðin bólusetning hér á landi eftir áramót. Spurður segir hann það ekki hafa komið til umræðu að breyta sóttkvíarreglum þegar kemur að börnum þangað til. Það muni aðeins verða til þess að smitum hjá börnum fjölgi.

Það er hins vegar full ástæða til þess að endurskoða smitgána. Það kann að vera að það fyrirkomulag sé að valda því að þetta sé að dragast svona á langinn innan skólanna. Þetta er svokallað höfrungahlaup smita. Börn eru varla komin úr smitgát þegar þau eru send í sóttkví og greinast svo kannski smituð í kjölfarið. Þannig að þetta getur verið ansi langur tími.“

Óráðlegt væri þó að fara í miklar breytingar á þessum efnum þar sem fáir dagar eru eftir af skólaárinu fram að jólum, að sögn Þórólfs.

„Þetta er eitt af því sem kemur til greina og er bara til skoðunar. Því við getum ekki breytt sóttkvínni. Við sjáum að nágrannaþjóðir okkar sem voru með smitgát eru að taka upp sóttkví og herða reglur innan skólanna því þau hafa sömu áhyggjur og við.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert