Frumtillögur að breyttu hverfaskipulagi í Fossvogs- og Bústaðahverfi hafa valdið óánægju meðal íbúa hverfisins. Íbúasamtök hverfisins héldu íbúafund í síðustu viku og í lok fundarins var skorað á borgaryfirvöld og sér í lagi borgarstjóra að framlengja frest til þess að senda inn athugasemdir.
Mbl.is heyrði í borgarfulltrúum allra flokka og innti þá eftir afstöðu sinni, bæði varðandi tillögurnar og hvort seinka eigi athugasemdafrestinum.
Afstaða borgarfulltrúanna skiptist í meginatriðum eftir meirihluta og minnihluta, líkt og oft hefur verið á kjörtímabilinu. Þá náðist ekki, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir blaðamanns í borgarstjóra og því hafa borgarfulltrúar allra flokka nema Samfylkingar svarað mbl.is um málið.
Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna í borginni, segist vera mótfallin þeirri hugmynd sem fram kemur í grunntillögunum. Telur hann þá best að hætta strax við hana og segir hann það lágmarks kurteisi við íbúa hverfisins að verða við beiðni þeirra um að lengja frestinn til þess að gefa húsfélögunum í hverfinu ráðrúm til þess að skila inn umsögn um tillöguna.
Telur Eyþór þá töluvert vænlegri lausn að líta til annarra byggingarlanda í borginni og nefnir sem dæmi Keldnaland og Úlfarsárdal. Myndi hann fremur vilja sjá að Bústaðavegur yrði gerður að göngu- og umhverfisvænni breiðgötu.
Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem sækist eftir oddvitasætinu í komandi prófkjöri, tekur þá í svipaðan streng. Hún segir ljóst að borgin sé að ganga of langt í þéttingu byggðar í rótgrónu hverfi. Hún bendir á að verið sé að varpa fram sprengju í umræðuna varðandi hverfi sem á um sárt að binda. Vísar hún þar til Fossvogsskólamálsins, en mygluvandi í skólanum hefur verið mikið í umræðunni, auk þess að hún bendir á að leikskólar hverfisins ráði ekki við aukna fólksfjölgun.
Hún telur að hægt sé að byggja að einhverju leyti í hverfinu en ítrekar að gengið sé of langt og í óþökk íbúa og rekstraraðila á svæðinu. Þá segir hún ókurteisi að „varpa fram athugasemdafresti rétt fyrir jól“, fólk hafi ekki tíma til þess að huga að þessum málum á þessum árstíma og því eðlilegt að framlengja frestinn.
Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, er einnig mótfallin þessum tillögum og vísar hún til þess sem Hildur benti einnig á. Að innviðir hverfisins ráði ekki við þennan aukna fólksfjölda. Þá telur hún sjálfsagt og eðlilegt að framlengja frestinn.
Hún telur þá líkt og Eyþór að vert sé að horfa til annarra byggingarlanda og bendir á Grafarholt, Úlfarsárdal, Geldinganes og Kjalarnes í því samhengi.
Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, bendir á að um sé að ræða frumtillögur en hún segist þá skilja áhyggjur íbúa hverfisins og tekur hún undir þær. Hún vill sjá samráðsferlið hefjast fyrr. Of oft sé búið, eins og nú, að leggja línurnar í umræðuna áður en að samráðið hefst.
Hún segist þá styðja þéttingu byggðar en telur þessar tillögur helst til öfgakenndar. Þá er hún sammála því að lengja ætti frestinn og að það sé eðlilegur hluti samráðs við íbúa.
Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalista, segir aðal áhersluna eiga að vera að hlusta á raddir íbúanna. Þá er hún sammála því að framlengja eigi frestinn til að senda inn athugasemdir og segir hún mikilvægt að horfa á heildarmyndina þegar verið er að skipuleggja uppbyggingu íbúða. Það er hvar á að byggja, fyrir hverja og hvernig sé að því staðið. Hún bendir á mikilvægi þess að enginn hópur sé skilinn eftir á biðlistum við í uppbyggingu íbúða í borginni.
Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri Grænna, segist vera sammála þessum tillögum í ljósi þeirrar framtíðarsýnar sem Reykjavíkurborg er að vinna eftir. Hún segir ljóst að horfa þurfi á þessar tillögur í stærra samhengi og vísar til borgarþróunar, umhverfismála og breyttra samgöngumáta borgarbúa.
Hún segir hægt að skoða það að framlengja frestinn en bendir á mikilvægi þess að fylgja formlegum verkferlum og að mikilvægara sé að breyta þá forminu í staðinn fyrir að gera undantekningar á því.
Alexandra Briem, forseti borgarstjórnar og borgarfulltrúi Pírata, segist í grunnin lítast ágætlega á tillögurnar en segir ljóst að fyrst þurfi að klára samráðs ferlið og sjá hvað kemur út úr því. Hvað varðar frestinn til að senda inn athugasemdir segir Alexandra vert að skoða það að lengja frestinn. Hún bendir þá á að búið sé að framlengja hann áður og setur spurningarmerki við það að fresta fram í apríl. Mögulega sé það helst til mikið.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, borgarfulltrúi Viðreisnar, bendir á að um sé að ræða frumtillögur að hverfaskipulagi og að þær tillögur komi til vegna íbúasamráðs þar sem fram komu óskir um breytingar á hverfinu. Segir hún ljóst að tillögurnar „falli ekki af himnum ofan“. Henni lýst ágætlega á tillögurnar en vildi í sjálfu sér ekki gefa upp neina formlega afstöðu þar sem samráði við íbúa væri ekki lokið.
Hún segir þá leitt að sjá hverfaskipulagsmál, sem ekki sé pólitískt, blásið upp í aðdraganda kosninga.
„Mín skilaboð eru þessi, þetta mál er frábær hverfaskipulags grunnvinna. Hún er ekki pólitísk, það er verið að blása upp mál og gera það pólitískt í aðdraganda kosninga sem er það ekki. Mér finnst ekki gott að heyra að Sjálfstæðisflokkurinn í Bústaðarhverfi sé að boða til fundar og gera dramatískt pólitískt mál úr þessu. Mér finnst það bara ekki gott mál.“