Skólahald í Ölduselsskóla í Breiðholti fellur niður í dag vegna fjölda kórónuveirusmita hjá nemendum og starfsmönnum skólans. Þetta staðfestir Elínrós Benediktsdóttir, skólastjóri Ölduselsskóla, í samtali við mbl.is.
Frá því fyrir helgi hafa komið upp smit hjá nemendum í minnst fimm árgöngum og hjá tveimur starfsmönnum skólans, að sögn Elínrósar. Nákvæm tala yfir fjölda smitaðra liggur þó enn ekki fyrir.
„Þetta olli því að aðrir starfsmenn hafa verið sendir í sóttkví. Bæði vegna útsetningar hér innanhúss og svo eru einhverjir starfsmenn sem hafa verið útsettir fyrir smiti annarsstaðar og því er fjöldi þeirra sem hefði ekki getað mætt í skólann í dag.“
Skólastjórnendur munu taka stöðuna betur á fundi með Almannavörnum og Skóla- og frístundasviði síðdegis í dag. Ekki er ljóst hvenær skólinn mun opna að nýju.
„Við sjáum betur hvernig landið liggur eftir fundinn í dag.“
Elínrós segir alltaf vont þegar grípa þurfi til aðgerða af þessu tagi. Það sé þó nauðsynlegt í ljósi stöðunnar eins og hún er einmitt núna.
„Þetta er ekki eitthvað sem maður leikur sér að eða gerir að gamni sínu.“