Kristján Jóhannesson hefur verið ráðinn rekstrarstjóri hjá Gæðabakstri. Krístján mun bera ábyrgð á stjórnun, rekstri og áætlun framleiðslusviðs auk vöruþróunar og átaksverkefna.
Kristján starfaði síðast sem Onboard Services Manager hjá Icelandair. Þar bar hann ábyrgð á rekstri, þjónustu og söluvarningi um borð í vélum félagsins, að því er fram kemur í tilkynningu.
Þar áður starfaði hann sem viðskiptastjóri í einkabankaþjónustu MP banka, forvera Kviku, og hjá Arion banka sem sölustjóri útibúa á viðskiptabankasviði og á eignastýringarsviði.
Kristján hefur lokið BSc í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2009 og er að ljúka MSc í Business Management frá sama skóla.
Utan vinnu er Kristján virkur í íþróttastarfi tengdu sundi, en hann hefur æft og þjálfað sund í fjölmörg ár. Þá er hann í stjórn Sunddeildar KR.