Katrín Björgvinsdóttir er ungur leikstjóri á uppleið sem nýlega hlaut það tækifæri að vera einn þriggja leikstjóra nýjustu sjónvarpsþáttaraðar Ófærðar. Hún segir það hafa verið gríðarlegt tækifæri fyrir nýútskrifaðan leikstjóra og að tökurnar hafi verið afar lærdómsríkt ferli.
Katrín, 35 ára, hefur verið viðloðandi kvikmyndabransann frá 20 ára aldri en hún byrjaði sem svokallaður hlaupari (e. runner) á setti við tökur á sjónvarpsþáttunum Mannaveiðum, sem Björn Br. Björnsson leikstýrði.
„Þar var mér svolítið bara hent út í djúpu laugina og ég látin gera og græja alls konar,“ segir hún í samtali við mbl.is.
Hún segist fljótt hafa heillast af vinnunni, fjölbreytileikanum og fagfólkinu sem henni fylgdi.
„Eftir Mannaveiðar langaði mig bara í meira og fór á fullt í að leita að næstu verkefnum, sendi tölvupóst á alla sem voru að gera eitthvað svo ég kæmist aftur á sett sem fyrst. Ég þurfti reyndar að beita brellibrögðum því ég hafði klesst svo marga bíla í fyrsta verkefninu mínu að ég neyddist til að leita að vinnuveitendum sem ekki höfðu heyrt um runnerinn umrædda sem hafði skitið upp á bak í fyrstu vinnunni sinni.“
Í gegnum árin vann Katrín sig svo upp frá því að smyrja samlokur og hella upp á kaffi yfir í að taka þátt í að skrifa og framleiða sjónvarpsþættina Hæ Gosa fyrir sjónvarpsstöðina Skjá Einn. Síðan þá hefur hún komið að gerð ýmissa annarra sjónvarpsþátta, bíómynda og auglýsinga, bæði hér á Íslandi og í Danmörku þar sem hún er nú búsett.
Reynslan sem Katrín öðlaðist í bransanum kom að góðum notum þegar hún fékk inni í leikstjórnardeild hins virta danska kvikmyndaskóla Den Danske Filmskole árið 2015, ásamt fimm öðrum, og útskrifaðist hún þaðan árið 2019. Lokaverkefnið hennar, Dronning Ingrid, hlaut frábæra dóma í dönskum fjölmiðlum og vinnur Katrín nú að sjónvarpsseríu með sama nafni fyrir sjónvarpsstöðina TV2.
„Þegar ég var að klára skólann var einhver mótþrói í mér og mig langaði að gera eitthvað annað en þessa týpísku kvikmyndaskólastuttmynd sem fer á einhver festivöl og enginn nennir að sjá nema aðrir kvikmyndaskólanemar. Ég ákvað að gera pilot [e. prufu] að sjónvarpsþætti og reyna að nota hann til þess að selja hugmyndina að seríunni í Danmörku. Það gekk og nú erum við handritshöfundurinn minn búnar að vera að þróa söguna og skrifa handrit í samstarfi við TV2 undanfarin tvö ár.“
Hún segir að sig hafi langað að búa til sjónvarpsseríu sem væri mannleg og ljúfsár og áhorfendur gætu tengt við á persónulegan hátt. Sjónvarpsmiðillinn sé heillandi, sérstaklega núna þegar hann er svo útbreiddur og nær til margra. Það henti henni að segja sögur í þáttaformi því það gefist lengri tími til þess að kafa niður í persónurnar og gefa þeim tíma til þess að taka bæði skref áfram og aftur á bak.
„Dronning Ingrid er dramakómedía um 33 ára gamla krónískt einhleypa alfa-konu sem neyðist til þess að reyna að finna sér kærasta í fyrsta sinn. Allir í kringum hana eru byrjaðir að flytja í úthverfin til þess að eignast börn og hún áttar sig á að ef hún gerir ekkert mun hún standa ein eftir. Serían fjallar um forréttindakrísu hinnar hvítu norrænu nútímakonu og erfiðleikana sem fylgja því að samhæfa gamla góða drauminn um vísitölufjölskylduna og hina femínísku hugsjón um að standa á eigin fótum og feta sinn eigin veg.“
Aðspurð segist hún og annar meðhandritshöfundur hennar vilja taka sér góðan tíma í skrif þáttanna en vonandi geti tökur á þeim hafist á næsta ári og þá gætu þeir farið í loftið í byrjun árs 2023.
Hæfileikar Katrínar hafa þó einnig vakið athygli út fyrir landsteina Danmerkur en árið 2020 bauðst henni að leikstýra þremur þáttum Ófærðar 3, sjónvarpsseríu eftir reynsluboltann Baltasar Kormák. Hún segir það hafa verið „ótrúlega skemmtilegt“ að taka þátt í svo stóru verkefni.
„Ég man bara þegar ég mætti á sett fyrsta daginn og sá hvað þetta var alvöru eitthvað, þvílíkt magn af kláru fólki og ótrúlega vel að öllu staðið. Ég var að koma beint úr tökum á lítilli seríu í Danmörku þar sem við hjóluðum á milli tökustaða með ljósastanda á bögglaberanum svo það var alveg einstök upplifun að koma á svona geggjað sett þar sem hver einasti starfsmaður er fagmaður fram í fingurgóma.“
Þótt Katrín hafi aldrei unnið í verkefni af sömu stærðargráðu og Ófærð segist hún hafa verið fljót að lenda í hlutverki sínu sem leikstjóri í þessari metnaðarfullu seríu.
„Auðvitað var ég stressuð því Ófærð var allt öðruvísi verkefni en ég er vön. Í náminu var mikil áhersla lögð á hlutverk leikstjórans sem höfundur og listamaður og ég er vön því að vinna að mínum eigin verkefnum sem ég tek þátt í að móta, þróa og skrifa frá grunni. Þegar maður er ráðinn inn í verkefni eins og Ófærð þarf maður að treysta á handverk sitt, skilja forsendur verksins og setja sig inn í listræna sýn annarra. Þetta er allt öðruvísi vinnuaðferð en ég þekki en mér fannst virkilega gaman að upplifa þessa samstillingu á milli mín og samstarfsfólks míns og ég get ekki beðið eftir að gera þetta aftur.“
Margt hefur breyst hvað varðar viðhorf til kvenna í kvikmyndabransanum á síðastliðnum árum en lengi má gott bæta, segir Katrín innt eftir því.
„Það er sjúklega gaman að vera kona í kvikmyndabransanum í dag og ótrúlega mikið af spennandi tækifærum. Auðvitað er ekkert búið að uppræta kynjamisrétti fyrir fullt og allt en maður finnur alveg fyrir því að systematískar breytingar í kerfinu hafa, þegar allt kemur til alls, haft jákvæðar afleiðingar.“
Hún segist í raun ótrúlega heppin að vera kvenkyns kvikmyndaleikstjóri í dag og njóti klárlega góðs af baráttu þeirra kvenna sem á undan henni komu. Hún finni skýrt að það sé búið að ryðja veginn fyrir hana.
„Ég er auðvitað líka algjör forréttindapési sem hvít, ágætlega vel stæð kona sem elst upp á Íslandi og mér finnst mikilvægt að við höldum áfram að berjast fyrir því að fólk með mismunandi bakgrunn fái tækifæri í kvikmyndabransanum.“