Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur telur yfirgnæfandi líkur á því að rauð jól séu í vændum. Veðurspár gefi til kynna, eins og er að minnsta kosti, að snjó taki upp á láglendi um og upp úr 20. desember.
Hann segir veðurspár einkennast af því að veðurlagið taki breytingum eftir næstu helgi og loft taki að berast til landsins úr suðri með sunnanáttum. Þá megi búast við mildu veðri og að taki upp þann snjó sem fallið hefur.
Einar segir þó að búast megi við að það snjói og hláni til skiptis þessa vikuna og eins og áður segir að sá snjór sem eftir verði á láglendi næstu helgi hverfi vegna mildara veðurs.
Þá bendir hann á að ekki sé útilokað að hæðarsvæði komi yfir landið yfir jólin og þá megi búast við björtu veðri, engri úrkomu og frosti. Niðurstaðan sé þá hin sama, rauð jól í vændum.