Börn fái lægri skammt af bóluefni Pfizer

Sérfræðinefnd Lyfjastofnunar Evrópu um lyf og menn (CHMP) leggur til …
Sérfræðinefnd Lyfjastofnunar Evrópu um lyf og menn (CHMP) leggur til að börnum á aldrinum 5-11 ára verði gefið lægri skammtur af bóluefni Pfizer en þeir sem eldri eru. AFP

Börn á aldrinum 5-11 ára munu hljóta minni skammt af bóluefninu Comirnaty (Pfizer/BioNTech) en þeir sem eldri eru. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lyfjastofnun.

Gagnsemi meiri en áhætta samkvæmt rannsókn

Í tilkynningu Lyfjastofnunar segir að við bólusetningu barna í ofangreindum aldurshópi skuli nota 10 µg af bóluefninu Comirnaty í stað 30 µg. Eins og hjá 12 ára og eldri skuli bóluefnið gefið í vöðva í upphaldegg tvisvar sinnum og eigi þrjár vikur að líða á milli bólusetninga.

Þar er einnig vísað í rannsókn sem gerð var á nærri 2.000 börnum á aldrinum 5-11 ára, þar sem áhrif Comirnaty voru skoðuð. Rannsóknin leiddi í ljós að Comirnaty framleiddi sambærilega svörun mótefna hjá 5-11 ára þegar það var gefið í minni skammti (10 µg) og fékkst í niðurstöðu hjá fólki á aldrinum 16-25 ára í 30 µg skammti. Þar að auki hafi þrjú þeirra 1.305 barna sem fengu bóluefnið þróað með sér Covid-19 samanborið við 16 börn af 663 sem fengu lyfleysu. 

Þýðing þessara niðurstaðna er sú að bóluefnið er 90,7% virkt í vörn gegn einkennum COVID-19 (þrátt fyrir að raunveruleg virkni gæti verið einhversstaðar á bilinu 67,7%-98,3%),“ segir í tilkynningunni.

Þá eru algengustu aukaverkanir hjá börnum á aldrinum 5-11 ára sögð svipuð og hjá þeim sem eru 12 ára og eldri. Meðal annars megi nefna verk á stungustað, þreytu, höfuðverk, roða og bólgu á stungustað, vöðvaverki og kuldahroll. Einkennin séu yfirleitt væg og gangi yfir á nokkrum dögum.

„Í ljósi þessara niðurstaðna gat sérfræðinefndin því ályktað að gagnsemi Comirnaty hjá börnum á aldrinum 5-11 væri meiri en áhættan, sér í lagi hjá þeim með undirliggjandi þætti sem auka áhættuna á alvarlegum COVID-19 sjúkdómi.“

Mögulegar aukaverkanir vegna bólusetninga hjá börnum á aldrinum 5-11 ára …
Mögulegar aukaverkanir vegna bólusetninga hjá börnum á aldrinum 5-11 ára eru sögð væg og að þau gangi yfir á nokkrum dögum. AFP

Grannt verði fylgst með öryggi bóluefnisins

Comirnaty er bóluefni til varnar COVID-19. Í bóluefninu er svokallað mRNA sem inniheldur leiðbeiningar fyrir framleiðslu gaddapróteina (e. spike proteins), en þau eru einkennandi fyrir veiruna sem veldur COVID-19 sjúkdómi (SARS-CoV-2). Comirnaty inniheldur ekki sjálfa veiruna og getur ekki valdið COVID-19.

Fylgiseðill lyfsins, sem inniheldur upplýsingar fyrir almenning, er aðgengilegur á vef Lyfjastofnunar.

Í samræmi við áætlun ESB um eftirfylgni með öryggi allra bóluefna gegn Covid-19 verði grannt fylgst með öryggi Comirnaty, að því er greint frá í tilkynningu Lyfjastofnunar. Þar segir einnig að þrátt fyrir að margir hafi nú þegar verið bólusettir með bóluefnum gegn Covid-19 gætu nýjar aukaverkanir gert vart við sig þegar fleira fólk fær bóluefnið.

„BioNTech, fyrirtækið sem hefur sett bóluefnið á markað í Evrópu þarf að veita upplýsingar með reglulegu millibili og því er gert að framkvæma rannsóknir til að fylgjast með öryggi og virkni bóluefnisins þegar það kemst í notkun hjá almenningi. Lyfjayfirvöld framkvæma sömuleiðis rannsóknir til þess að fylgjast með bóluefninu,“ segir í tilkynningunni.

Þessar aðgerðir eigi að gera lyfjayfirvöldum kleift að meta upplýsingar um gögn um leið og þau verða aðgengileg og grípa til viðeigandi ráðstafana ef þörf krefur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka