Drap sig nær á söngnum

Ómar söng Sveitaball á 75 ára afmæli Ragga Bjarna í …
Ómar söng Sveitaball á 75 ára afmæli Ragga Bjarna í Laugardalshöll. Magnús Ólafsson og Raggi voru með á nótunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Sum­argleðin er merki­leg­asta fyr­ir­brigði sem hef­ur verið á Íslandi,“ sagði Ragn­ar Bjarna­son heit­inn í viðtali við of­an­ritaðan fyr­ir um þrem­ur árum. Ómar Ragn­ars­son hef­ur sent frá sér bók­ina Af ein­skærri Sum­argleði – Sög­ur frá lit­rík­um skemmt­ana­ferli, þar sem hann fjall­ar um fyr­ir­bærið í máli og mynd­um.

Ómar og hljóm­sveit Ragga Bjarna skemmtu sam­an á héraðsmót­um Sjálf­stæðis­flokks­ins sum­ur­in 1969 og 1971. Upp úr því sam­starfi spratt Sum­argleðin, sem gekk í 15 ár um allt land, en Ómar bend­ir á að hún hafi í raun verið loka­punkt­ur á ákveðnu skemmt­ana­formi héraðsmót­anna, sem þróaðist og stóð yfir í 50 ár, frá 1936 til 1986. „Ég þekki þetta tíma­bil vel, upp­lifði reví­urn­ar og í bók­inni segi ég sög­una, meðal ann­ars sögu héraðsmót­anna frá upp­hafi,“ seg­ir Ómar. „Sag­an er stór hluti menn­ing­ar­sögu þjóðar­inn­ar.“

Nýtt lag

Fyr­ir um fimm árum slasaðist Ómar illa, gat sig hvergi hreyft í átta vik­ur en var samt ekki dauður úr öll­um æðum. „Rétt fyr­ir slysið fór ég að hugsa hvað ég ætti eft­ir að gera. Ég átti fimm hand­rit að bók­um sem ég var byrjaður á og þegar rætt var um hjá For­laginu að skrifa þyrfti bók um Sum­argleðina ákvað ég að gera það á meðan menn úr henni væru enn uppist­and­andi.“ Hann bæt­ir við að sam­fara út­gáfu bók­ar­inn­ar hafi gef­ist tæki­færi til að gefa út lagið „Hin ei­lífa sum­argleði“ með sex af sjö söngvur­um úr Sum­argleðinni, sem sungu lög­in á tveim­ur breiðskíf­um Sum­argleðinn­ar. Aðeins Ragga Bjarna vant­ar, en með Ómari syngja nýja lagið Þor­geir Ástvalds­son, Magnús Ólafs­son, Þuríður Sig­urðardótt­ir, Sigrún „Diddú“ Hjálm­týs­dótt­ir og Grím­ur Sig­urðsson. „Þótt ég væri óvinnu­fær gat ég hugsað,“ seg­ir höf­und­ur­inn og staðhæf­ir að allt sé rétt og satt. „Ég er með vitni,“ seg­ir hann um eina lygi­leg­ustu sög­una.

Marg­ar skemmti­leg­ar frá­sagn­ir, þar sem hinir og þess­ir eiga hlut að máli, eru í bók­inni auk þess sem tæp­lega 200 mynd­ir segja sína sögu. Einn kafli er til dæm­is helgaður bíl­stjór­an­um Jóni T. Ágústs­syni, sem kallaður var Jón gust­ur að gefnu til­efni, og er hver upp­rifj­un ann­arri betri. „Hvar erum við?“ var hann eitt sinn spurður. „Við erum hérna rétt hjá,“ svaraði gust­ur­inn og málið út­rætt. Ómar vill ekki gera upp á milli ein­stakra karakt­era og legg­ur áherslu á að Raggi, sem hann kall­ar gjarn­an Bjarna­son, hafi verið prím­us mótor. „Hann var aðalmaður­inn, skaffaði hljóm­sveit­ina, skrifaði hluta efn­is­ins, fann skemmti­staðina og gerði samn­ing­ana.“

Ómar bend­ir á að alla tíð hafi ríkt for­dóm­ar í skemmtana­líf­inu og menn­ing­unni skipt upp í lág- og há­menn­ingu, þar sem lítið sé gert úr dæg­ur­tónlist. Til dæm­is hafi verið bannað að aug­lýsa dans­leiki í rík­is­út­varp­inu í þrjú ár á sjötta ára­tugn­um. Ómar bend­ir á að marg­ir af bestu söngvur­um þjóðar­inn­ar og jafn­vel í heimi hafi komið fram á um­rædd­um skemmt­un­um og að draga fólk í dilka með þess­um hætti sé fá­rán­legt. „Orðið menn­ing er dregið af orðinu maður. Allt sem maður­inn ger­ir er menn­ing,“ árétt­ar hann.

Í 60 ár hef­ur Ómar sungið lagið „Sveita­ball“. „Ég þurfti að syngja það tvisvar á hverj­um stað á hverri ein­ustu sum­argleði og var næst­um því bú­inn að drepa mig á því,“ seg­ir hann, en lýs­ing á at­vik­inu þegar Ómar hélt að hann væri Olga Kor­but fim­leika­kona er í bók­inni. „Ég hef lent í ótrú­leg­um hremm­ing­um en það hættu­leg­asta sem ég hef gert er að syngja „Sveita­ball“.“

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert