„Ég get ekki losað mig við tunnuna“

Brynja segist engin not hafa fyrir gráu tunnuna en er …
Brynja segist engin not hafa fyrir gráu tunnuna en er ekki leyft að losa sig við hana. mbl.is/Brynjar Gauti

Guðný Höskuldsdóttir er framtaksamur flokkari og nú er svo komið að hún hefur lítil sem engin not fyrir gráu tunnuna sem er ætluð blönduðum úrgangi frá heimilum. Þegar hún fór þess á leit við borgina um að losa sig við þá tunnu fékk hún hins vegar neitun með vísan í sorpsamþykkt.

„Ég myndi gjarnan vilja losna við hana, ég hef ekkert við hana að gera,“ segir Guðný í samtali við mbl.is.

Reglan furðuleg í ljósi umræðu um urðun

Guðný segir þetta skjóta skökku við í samfélagi sem er að reyna að halda urðun í lágmarki:

„Mér finnst þetta mjög undarlegt af því að það eru búnir að vera þættir í sjónvarpinu eins og Hvað getum við gert um að við eigum að hætta að urða sorp. Það er akkúrat það sem mig langar að gera á mínu heimili. Að urða ekki neitt. En þá bara get ég það ekki. Ég get ekki losað mig við tunnuna“.

Guðný setti sérstakt tunnuskýli sem rúmar þrjár tunnur á planið …
Guðný setti sérstakt tunnuskýli sem rúmar þrjár tunnur á planið sitt. Ljósmynd/Aðsend

Hvert íbúðarhús þurfi eitt ílát fyrir blandaðan úrgang

Í 3. mgr. 4. gr. samþykktar um meðhöndlun úrgangs í Reykjavíkurborg segir „Að lágmarki skal vera eitt ílát fyrir blandaðan úrgang við hvert íbúðarhús“. Sérbýlishúsum er þó heimilt að vera með spartunnu sem er helmingi minni en hin hefðbundna 240 lítra ruslatunna.

Úrgangur úr gráum tunnum er ​samkvæmt vefsíðu Sorpu hakkaður í móttöku- og flokkunarstöðinni í Gufunesi. Það gerir m.a. kleift að endurheimta smærri málmhluti með vélrænni flokkun. Afgangurinn er síðan baggaður og urðaður á urðunarstaðnum í Álfsnesi.

Guðný vakti fyrst athygli á málinu inni á Facebook-hóp um endurvinnslu og endurnýtingu. Þar segir hún frá því að hún hafi pláss fyrir þrjár tunnur við heimilið sem sé raðhús. Þar sem hún nái nú að flokka flest í bláa, græna og brúna tunnu hafi hún einungis þörf á að losa einn eða tvo pokar af blönduðum úrgangi á þriggja vikna fresti – sem hún myndi þá geta farið með sjálf á Sorpu.

Íhugar að færa tunnuna inn í bílskúr

Í svari frá Reykjavíkurborg var henni hins vegar greint frá því að það væri ekki hægt að losa hana við gráu tunnuna þar sem áðurnefnd sorpsamþykkt gerði ráð fyrir einni grárri tunnu við hvert heimili. Því muni Guðný áfram þurfa að borga fyrir umhirðu hennar. Guðný er að hugsa um að færa tunnuna um set og hafa einungis þær grænu, bláu og brúnu í tunnuskýlinu:

„Mér datt nú í hug að setja hana út í bílskúr og geyma hana þar og nota plássið í eitthvað annað. En ég þarf nú samt sem áður að borga fyrir hana“.

Urðunarstaðnurinn í Álfsnesi.
Urðunarstaðnurinn í Álfsnesi. mbl.is/Styrmir Kári

Breytt lög gætu verið bót máli

Breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs munu taka gildi í upphaf árs 2023 en þá verður einstaklingum og lögaðilum gert skylt að flokka heimilisúrgang og gerð krafa um að sérstök söfnun fari fram á pappír, pappa, málmum, plasti, gleri lífúrgangi, textíl og spilliefnum. Þá verður hvorki er heimilt að urða né senda til brennslu ofangreindar úrgangstegundir.

Guðný ætlar þó ekki að bíða eftir því að þessi lagabreyting taki gildi eftir rúmt ár:

„Mig langar að senda einhverja pósta og svona ég held að þetta sé ekki alveg búið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert