Ekki verið að senda skilaboð með ráðningu Björns

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir í mörg horn að líta hvað varðar uppbyggingu heilbrigðiskerfisins. Létta þurfi álagið á spítala, laga flæði sjúklinga og tryggja rýmin. Kerfið þurfi að fara að spila sem ein heild og Björn Zoëga, forstjóri Karolinska sjúkrahússins, sé hárréttur maður í að veita stjórnvöldum liðsinni í þessum verkefnum.

„Hér er verið að fá mann með gríðarlega mikla þekkingu og reynslu af starfsemi og stjórnun á sjúkrahúsi þar sem fram fer flókin starfsemi og veitir hann okkur liðsinni í þeim verkefnum sem boðuð eru í stjórnarsáttmálanum,“ segir Willum, í samtali við mbl.is, spurður út í ráðninguna á Birni Zoëga í ráðgjafahlutverk varðandi málefni Landspítala.

Landspítalinn sé hryggjarstykki heilbrigðiskerfisins og þjónustunnar. Stór í öllu umfangi sama hvaða mælitækjum sé beitt á það. Hann segir gífurlega mikilvægt að vanda vel til verka þegar kemur að skipulagi, fjármögnun og umbótum á þjónustu og því sé Björn fenginn til liðs við stjórnvöld.

Björn Zoëga hefur starfað sem forstjóri Karolinska sjúkrahússins í Svíþjóð síðan 2019 og hefur náð eftirtektarverðum árangri í starfi sínu þar. Meðal þeirra aðgerða sem hann greip til í hagræðingum þar ytra voru uppsagnir nokkur hundruð millistjórnenda. Ræddi Björn um þessar aðgerðir og áskoranir heilbrigðiskerfisins hér á landi í Dagmálaþætti í haust.

Willum segir að ekki sé verið að senda nein skilaboð með ráðningu Björns um að sambærilegar aðgerðir séu í vændum hér heima. Einfaldlega sé verið að ráða inn mann með „reynslu, hæfni og þekkingu á rekstri spítala af þessari stærðargráðu“.

Hjúkrunarfræðingar stór hluti verkefnisins

Yfirlæknir bráðadeildar Landspítala, Hjalti Már Björnsson, sagði í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í gær að staðan á Landspítalanum væri „skammarblettur á íslensku samfélagi“.

Vísaði hann til þess að það vantaði hjúkrunarfræðinga þar sem kjör þeirra væru til þess valdandi að þeir kjósi að vinna ekki á spítalanum.

Spurður út í þessi ummæli segir Willum: „Það eru náttúrulega margir þættir í þessu. Stóra vandamálið í bráð og lengd er auðvitað álagið á spítalanum og flæði sjúklinganna innan hans. Svo er það mönnunin sem er þekkt vandamál. Forveri minn skipaði landsráð sem er að horfa til þessa og svo veit ég að stjórnendur á spítalanum hafa leitað allra ráða til þess að sækja sérmenntað fólk í störfin.“

Tryggja þurfi að fólk fái þá þjónustu sem það þarf á réttum stað og réttum tíma svo ekki myndist stíflur. Til að leysa þetta verkefni sé í mörg horn að líta og málefni hjúkrunarfræðinga spili þar stórt hlutverk.

Hann bendir einnig á að innleiðing þjónustutengdrar fjármögnunar sé hafin og hún haldi áfram á nýju ári. Með henni fáist „betri mælikvarðar á það hvað hlutirnir kosta“.

Willum segir þá mikilvægt að allt heilbrigðiskerfið fari að „spila sem ein heild“ og í því samhengi sé mikilvægt að samspil Landspítalans við allra aðra aðila sem veita þjónustu sé gott.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert