Virkni veirulyfsins Molnupiravir sem hemur fjölgun kórónuveirunnar í frumum líkamans er ekki jafn mikil og fyrst var talið. Lyfjahópur Landspítala og heilbrigðisráðuneytið endurmeta nú hvort kaupa eigi lyfið vegna þessa.
Í skriflegu svari frá ráðuneytinu kemur fram að til skoðunar hafi verið að kaupa áður nefnt lyf í tvíhliða samning við framleiðandann. Frekari rannsóknir á stærra þýði hafi hins vegar leitt í ljós að virkni lyfsins sé mun minni en talið var í fyrstu.
Morgunblaðið greindi frá því fyrir rúmri viku að til skoðunar væri að kaupa meðferðarlyfið Molnupiravir en fyrstu rannsóknir bentu til þess að góð vernd fengist við innlögnum á spítala ef lyfið væri tekið snemma eftir að bera færi á einkennum.
Niðurstöður rannsókna bentu í fyrstu til þess að lyfið gæti dregið úr innlagnartíðni á spítala um 50% en síðari greining bendir til þess að sú tala sé raunar 30%. Þessar upplýsingar gefi því lyfjahóp Landspítala vegna Covid-19 og ráðuneytinu efni til að endurmeta stöðuna og bíða frekari upplýsinga frá Evrópsku Lyfjastofnuninni.
Lyfið er ekki komið með samþykki Lyfjastofnunar Evrópu og þar með ekki markaðsleyfi. Komi til innflutnings á því, sem teljast verður ólíklegt í ljósi framan greindra upplýsinga, þyrfti að flytja það því inn sem undanþágulyf.
Bent er á í svari ráðuneytisins að nýtt lyf í töfluformi frá bóluefnaframleiðandanum Pfizer sé í vændum og talið sé að virkni þess sé töluvert betri og skili árangursríkari meðferð sjúklinga heldur en Molnupiravir.