Getur verið dauðans alvara að vera kona

Margar konur kannast við það að vera skjálfandi í skrifstofurýmum, að þurfa að bíða í löngum röðum til að komast á salerni á viðburðum, að snjallsímar passi illa í hendurnar á þeim. Þetta er allt hluti af þeim „óþægindum“ sem geta fylgt því að vera kona.

En það getur líka verið lífshættulegt að vera kona í samfélaginu sem við þekkjum sem ósjálfrátt lítur á karlkynið sem sjálfgefið. Þetta bendir Sæunn Gísladóttir á í Dag­mál­um, frétta- og menn­ing­ar­lífsþætti Morg­un­blaðsins en hún er þýðandi bókarinnar Ósýnilegar konur eftir Caroline Criado Perez sem hefur vakið mikla athygli um heim allan.

Einkenni kvenna eru „ótýpísk“

„Konur eru að deyja til dæmis úr hjartaáföllum vegna þess að einkenni þeirra eru „ótýpísk“. Vegna þess að hjartaáföll, eins og þau eru kennd og eins og læknar greina þau oftast eru týpísk karlahjartaáföll. Það er það sem við sjáum til dæmis í kvikmyndum. Hún [Perez] kallar það Hollywood-hjartaáföll.

Konur fá öðruvísi einkenni þannig að það tekur almennt lengri tíma að greina þær og þetta getur í alvöru leitt til þess að konur deyi,“ útskýrir Sæunn.

 „Enginn sem leggur upp með þetta“

Hún bendir á að rannsóknir sýni að konur eru 47% líklegri til að slasast alvarlega í bílslysum og 17% líklegri til að deyja í þeim en karlar. Er þetta talið vera meðal annars vegna þess að árekstrarprófunardúkkur sem yfirleitt voru notaðar voru miðaðar við meðal karlkynslíkama. Svona kynjamismunur segir Sæunn að verði til vegna vanhugsunar og er langt frá því að vera viljandi.

„Það er enginn sem leggur upp með þetta,“ segir Sæunn og bendir á að bílaframleiðendur hafi margir gert breytingar á öryggisprófunum hjá sér um leið og bent var á þessa skekkju. 

Í bókinni, sem kom út árið 2019, bendir Perez á sláandi rætur kynjamismunar og hvernig gögn líta á karlkynið sem sjálfgefið og kvenkynið sem frávik. Hlutdrægni sem er samofin samfélaginu og kerfinu öllu er afleiðing þess og gjalda konur þessari hlutdrægni dýrum dómi með heilsu sinni, tíma sínum og peningum.

Sæunn ræddi um sláandi niðurstöðurnar sem koma fram í Ósýnilegum konum og áhrif þeirra á hana í Dagmálum en þátt­inn má sjá í heild sinni hér.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert