Stjórnvöld eiga í formlegum samningaviðræðum um kaup á Hótel Sögu fyrir hönd Háskóla Íslands. Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, segir að ef af kaupum verði muni háskólinn fá um 70% af húsnæðinu undir starfsemi menntavísindasviðs. Félagsstofnun stúdenta fái 30% undir stúdentaíbúðir.
Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
„Áætlaður heildarkostnaður í kaupverði og endurbótum á hlut HÍ er um 6,5 milljarðar sem gerir kaupin að álitlegum kosti fyrir stjórnvöld og HÍ,“ segir Jón Atli í skriflegu svari við fyrirspurn Fréttablaðsins.
Í fjárlögum ársins 2022 kemur fram að fjármálaráðherra verði heimilt að kaupa Hótel sögu undir starfsemi Háskóla Íslands.
Þar kemur fram að hótelið gæti hentað fyrir starfsemi menntavísindasviðs háskólans. Deildin er nú staðsett í Stakkahlíð og Skipholti.