„Hrópa á aðstoð fyrir jólin“

Jódís Skúladóttir.
Jódís Skúladóttir. Ljósmynd/Aðsend

„Ástæðan fyrir því að ég kveð mér hljóðs hér í dag er sú að pósthólfið mitt er yfirfullt af póstum frá fátækum Íslendingum, öryrkjum sem hrópa á aðstoð fyrir jólin,“ sagði Jódís Skúladóttir, þingmaður VG, í jómfrúarræðu sinni á Alþingi í dag.

„Mig langar að segja við ykkur: Ég sé og ég heyri og ef ég gæti svarað hverjum pósti og ef ég gæti hjálpað hverju og einu þá myndi ég gera það en á því hef ég ekki tök. Ég get hins vegar lagt mig alla fram við að standa með þeim málum sem koma hér inn á þingið til þess að veita þeim brautargengi til þess að við getum lagað stöðuna til lengri tíma,“ sagði Jódís í umræðum um störf þingsins. 

Hjálpin sé í Reykjavík en ekki á landsbyggðinni

Hún sagði ennfremur, að hún þekkti fátækt á eigin skinni.

„Ég var barnung móðir og ég hef verið notandi að alls konar þjónustu sem venjulegt fólk úti í samfélaginu eins og ég og þið þurfum að nota. Það sem mig langar til að tala um hér í dag er líka það sem er sammerkt með allri þeirri þjónustu sem ég hef þurft að nota sem venjulegur þegn í þessu landi. Elsti sonur minn sem ég eignaðist þegar ég var 14 ára gömul var langveikt barn. Barnaspítalinn er í Reykjavík. Ég er þolandi kynferðisofbeldis. Hjálpin er í Reykjavík. Ég er lögfræðingur að mennt. Ég þurfti að sækja mína menntun til Reykjavíkur,“ sagði Jódís jafnframt.

Hún tók fram að allir landsmenn séu hluti af samfélaginu „en við sem erum af landsbyggðinni búum alltaf við skertan kost. Hér hefur verið talað um að fólk standi í röðum eftir jólamat. Víða á landsbyggðinni eru engar raðir af því að þar er engin hjálp.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert