Krafist 100% háhraðanets á vegum

Miklar truflanir urðu á fjarskiptum í óveðrinu í desember 2019 …
Miklar truflanir urðu á fjarskiptum í óveðrinu í desember 2019 sem leiddi í ljós að almenna farnetið er mikilvægt öryggistæki fyrir almenning. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Miklar breytingar og hröð uppbygging á sér stað á fjarskiptakerfi og farnetsþjónustu landsins og ætlar Fjarskiptastofa að gera sértækar uppbyggingarkröfur á fjarskiptafyrirtækin. Bæði um að komið verði á 100% slitlausri háhraðafarnetsþjónustu á stofnvegum landsins og að uppbyggingu á 5G-þjónustuni verði hraðað í litlum og meðalstórum byggðakjörnum. Þetta kemur fram í niðurstöðum samráðs Fjarskiptastofu við fjarskiptafyrirtækin o.fl. um tíðniheimildir fyrir almenna farnetsþjónustu sem munu renna út á næsta og þar næsta ári.

Fjarskiptastofa fékk Mannvit til að meta kostnað við kröfuna um háhraðanet á þjóðvegum og innleiðingu 5G á þjóðvegakerfi landsins þar sem ýmsar sviðsmyndir eru settar fram. Er kostnaðurinn mjög mismunandi milli landshluta og forsendna um sendistyrk og niðurhalshraða eða allt að 3.183 milljónir án virðisaukaskatts á landinu öllu miðað við 150 Mbps hraða.

Í frétt á heimasíðu Fjarskiptastofu kemur fram að þegar ný fjarskiptalög hafa verið afgreidd á Alþingi sé ætlunin að endurnýja velflest þessi tíðniréttindi sem fjarskiptafyrirtækin hafa til tuttugu ára en fyrst verði stigið milliskref og réttindin framlengd aðeins til skamms tíma eða til 31. mars á árinu 2023.

GSM enn í mikilli notkun

Bent er á að við endurnýjun heimilda til hagnýtingar á verðmætum tíðniauðlindum til langs tíma þurfi að endurskoða skilmála þeirra og gera kröfur um áframhaldandi uppbyggingu háhraðaneta, gæði og útbreiðslu þjónustunnar. Talið er að fljótlega verði tímabært að hætta rekstri á eldri farnetstækni, þ.e.a.s. GSM-þjónustunni í farsímakerfinu og 3G-þjónustu. Er nú stefnt að því að svonefndri útfösun á GSM-þjónustu ljúki innan fárra ára. 900 MHz tíðnisviðið er þó enn í fullri not kun fyrir GSM-þjónustu og bendir Síminn m.a. á það í samráðsskjölunum, sem Fjarskiptastofa hefur birt, að Síminn veitir GSM-þjónustu á 448 sendistöðum og rúm 10% af talþjónustu viðskiptavina Símans eru enn um GSM-kerfið. Eru tæki í kerfum Símans sem eingöngu styðja GSM-þjónustu enn tæplega 20.000 talsins. Því sé eðlilegt að setja stefnuna á að útfösun GSM-þjónustunnar verði samræmd hjá fjarskiptafyrirtækjum og þessari þjónustu verði ekki lokið fyrr en á árinu 2025.

Tekur Fjarskiptastofnun undir það en segir að farnetsfyrirtækin þrjú þurfi að standa jafnt að vígi í því verkefni. „FST er tilbúin til að funda með farnetsfyrirtækjunum fljótlega til að skipuleggja útfösun á eldri farnetsþjónustu og hvernig aðilar geta allir unnið saman til að gera þá útfösun skilvirka og hagkvæma. Náist slíkt samkomulag milli aðila sér FST fyrir sér að endurnýja heimildir Símans og Sýnar til viðbótartíðna á 900 MHz tíðnisviðinu til ársins 2025 samhliða kynningu á samræmdri og sameiginlegri útfösunaráætlun farnetsfyrirtækjanna þriggja,“ segir í niðurstöðu Fjarskiptastofnunar eftir samráðið.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert