Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að mikilvæg og stór mál bíði þingsins á kjörtímabilinu. „Þau verða ekki leyst í skotgröfum, með upphrópunum, ásökunum, öfundsýki eða endalausu niðurrifi.“
Þetta sagði Vilhjálmur í umræðum um störf þingsins í dag.
Hann sagði að þjóðin treysti á að þingið ynni af ábyrgð, skynsemi og að metnaðarfullri lausn mikilvægra mála.
„Við höfum öll skilyrði til að vera bjartsýn og ná góðum sigrum fyrir land okkar og þjóð. Við búum í landi tækifæranna og það verðum við að nýta okkur til að búa til enn betra samfélag og skapa öfluga velferð,“ sagði Vilhjálmur.
Hann benti m.a. á að hér á landi séu allar aðstæður til matvælaframleiðslu og ræktunar.
„Þarna verðum við að koma okkur saman um landnýtingu og uppbyggingu þjóðhagslega mikilvægra innviða. Við höfum efni á þessum innviðum, við vitum hverjir þeir eru. Við bara komum okkur ekki saman um hvernig og hvort við viljum byggja þá upp. Á meðan hlaupa tækifærin frá okkur og við tölum okkur niður,“ sagði Vilhjálmur.
Hann bætti við, að þessar deilur kæmu víða við og þar mætti nefna höfuðborgarsáttmálann þar sem komist hefði verið að samkomulagi til að bæta lífsgæði um 80% landsmanna, ásamt því að innleiða grænar lausnir, auka umferðaröryggi og draga úr samfélagslegum kostnaði.
„Þessu mikilvæga verkefni virðumst við ætla að klúðra vegna pólitískra deilna. Það þurfti mikið pólitískt þrek og samstarf til að koma höfuðborgarsáttmála á sem tryggja átti frelsi í samgöngum og heildaruppbyggingu í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu. Nú höfum við aðeins eytt öllum tímanum í að rífast um einn samgöngumáta sem á að vera yfir hina hafinn. Svona getum við ekki hagað okkur. Á okkur er treyst og við verðum að standa undir því,“ sagði Vilhjálmur.