Hæstiréttur hefur samþykkt málskotsbeiðni ákæruvaldsins vegna máls ákæruvaldsins gegn Guðberg Þórhallssyni og Rúnari Má Sigurvinssyni. Landsréttur sakfelldi þá í október fyrir umboðssvik og peningaþvætti. Ákærðu hafa ekki tekið afstöðu til beiðninnar.
Mennirnir voru dæmdir í Landsrétti nú í haust. Hlaut Rúnar 12 mánaða dóm og Guðberg 15 mánaða dóm, en málið snýr að því að Rúnar Már, fyrrverandi þjónustustjóri Isavia, er sakaður um að hafa þegið um 3,5 milljónir króna í mútur og hafa í stöðu sinni séð til þess að miðar í bílastæðahlið á vegum Isavia yrðu keyptir af tæknifyrirtæki Guðbergs á hærra verði en í boði hafi verið.
Í málskotsbeiðninni til Hæstaréttar kemur fram að meginástæðan að baki beiðninnar sé að aldrei áður hafi reynt á 264. gr. almennra hegningarlaga um mútugreiðslur í einkarekstri. Í málinu reyni í fyrsta sinn á beitingu ákvæðisins og því mikilvægt að fá úrskurð Hæstaréttar og að rétturinn setji því lagafordæmi.