Nýsköpunarsjóður fjárfestir í Evolytes

Frá vinstri, Örn Viðar Skúlason, fjárfestingastjóri Nýsköpunarsjóðs, Guðbjörg Aðalsteinsdóttir, verkefnastjóri …
Frá vinstri, Örn Viðar Skúlason, fjárfestingastjóri Nýsköpunarsjóðs, Guðbjörg Aðalsteinsdóttir, verkefnastjóri námsefnisgerðar hjá Evolytes, Sigurður Gunnar Magnússon leikjahönnuður hjá Evolytes, Íris Eva Gísladóttir, verkefnastjóri vöruþróunar Evolytes, Mathieu Grettir Skúlason, framkvæmdastjóri Evolytes, Adrien Eiríkur Skúlason, viðskiptaþróunarstjóri Evolytes, og Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs. Ljósmynd/Aðsend

Menntasprotafélagið Evolytes hefur lokið 70 milljóna króna hlutafjáraukningu, sem leidd var af Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins.

Evolytes hefur þróað heildstætt námskerfi sem kennir stærðfræði á árangursríkan og skemmtilegan máta í gegnum námsleik fyrir spjaldtölvur, námsbækur og upplýsingakerfi fyrir kennara og foreldra, að því er fram kemur í tilkynningu.

Þar segir að vörurnar vinni saman sem ein heild í gegnum gagnadrifin hugbúnað sem les og greinir getu barna í rauntíma og aðlagar námsefnið að getustigi þeirra til að hámarka námsárangur. Hlutafjáraukningin nýtist félaginu við markaðssetningu á Evolytes námskerfinu á erlendum mörkuðum og hraðar þróun kerfisins.

„Námskerfi Evolytes er þróað til að bæta árangur barna í stærðfræði. Á Íslandi er staðan sú að 26% barna geta ekki sýnt fram á hæfilega stærðfræðikunnáttu við lok grunnskólagöngu og UNESCO Institute of Statistics áætlar að 617 milljón nemendur á heimsvísu nái ekki lágmarkshæfni í stærðfræði, eða 6 af hverjum 10 börnum í heiminum. Að baki kerfinu liggja áralangar þverfaglegar rannsóknir sem sýna að börn geta með þessum hætti lært hraðar og með árangursríkari hætti en með hefðbundnum kennsluaðferðum,“ kemur fram í tilkynningu.

Stenst samanburð við skemmtiefni

„Evolytes hefur innleitt sex sálfræðikenningar til að tryggja hámörkun námsárangurs barna. Evolytes námsleikurinn er frábrugðinn öðrum námsleikjum þar sem hann stenst samanburð við það skemmtiefni sem börn sækjast í. Þessi blanda af rannsóknar- og skemmtanadrifinni nálgun er ein helsta sérstaða Evolytes námskerfisins,“ kemur enn fremur fram.

Kerfið hefur fengið jákvæð viðbrögð síðan það kom út fyrir einu og hálfu ári. Notendum á einstaklingsmarkaði hefur fjölgað jafnt og þétt auk þess sem skólar sýna því mikinn áhuga en rúmlega 40 skólar og 2.500 nemendur víða um land nota nú Evolytes.

Fram undan er markaðssókn í Evrópu og örari þróun á námskerfinu til að styðja við breiðari aldurshóp, fjölbreyttara tækjaúrval og bæta við nýjum skemmtilegum ævintýrum í Evolytes námsleikinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert