Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tekur ekki afstöðu til þeirra frumtillagna er snúa að hverfaskipulagi Bústaða- og Fossvogshverfis fyrr en samráðsferli lýkur. Segir hann nú þegar búið að framlengja athugasemdafrest tvisvar.
Mbl.is hefur undanfarna daga fjallað um umdeildar frumtillögur að hverfaskipulagi og þá sér í lagi þann hluta tillagnanna er snúa að nýbyggingum við Bústaðaveg. Fulltrúar allra flokka sem eiga sæti í borgarstjórn höfðu tjáð skoðun sína en ekki náðist í borgarstjóra, fyrr en nú.
Í skriflegu svari borgarstjóra segir að líkt og fram hafi komið í máli hans á opnum íbúafundi sem haldinn var í síðustu viku, þá telji hann eðlilegt að taka afstöðu til tillagnanna þegar yfirferð yfir athugasemdir og viðbrögð í yfirstandandi samráði lýkur.
Í lok íbúafundarins var skorað á borgarstjóra að framlengja athugasemdafrest sem rennur út á morgun fram að 1. apríl. Formaður íbúasamtakanna ítrekaði svo áskorunina í Morgunblaðinu nú um daginn.
Dagur segir þá í svari sínu varðandi umrædda áskorun: „Umhverfis- og skipulagssvið hefur þegar framlengt umsagnarfrest vegna vinnutillagnanna tvisvar. Skipulags- og samgönguráð mun taka afstöðu til óska um frekari framlengingu á fundi sínum á morgun.“