Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, segir að fyrirhugaðar breytingar á lögum um Stjórnarráðið stýrist ekki af umhyggju fyrir verkefnum, starfsfólki eða skilvirkni Stjórnarráðsins. Þetta væri „dýrasti og minnst ígrundaði ráðherrakapall sögunnar“.
Þetta sagði Sigmar í umræðum um störf þingsins í dag.
Hann benti á að það standi til að gera gríðarmiklar breytingar á Stjórnarráðinu og að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafi upplýst þingið um að menn hafi ekki ekki hugmynd um hvað það kosti en ljóst sé að upphæðin hlaupi á hundruðum milljóna króna.
Þá sé haft eftir Katrínu Jakobsdóttur að mikil tækifæri felist í þessari uppstokkun. „Þetta er satt best að segja með nokkrum ólíkindum. Það blasir við öllu hugsandi fólki að atburðarásin í þessu stýrist ekki af umhyggju fyrir verkefnum, starfsfólki eða skilvirkni Stjórnarráðsins. Þetta er þvert á móti viðbragð við kosningaúrslitum og ósætti á milli stjórnarflokkanna í risastórum málum,“ sagði Sigmar.
Hann tók fram, að í hvert skipti sem lagður væri stuttur vegspotti á vegum ríkisins, hús reist eða stjórnandi ráðinn færi fram einhvers konar mat eða greining á gagnsemi og kostnaði. En þegar ákveða ætti skipulag og strúktúr alls Stjórnarráðsins, m.a. til að bregðast við loftslagsvá og heimsfaraldri, þá dygði „þriggja manna óformlegt kaffispjall í fallegu húsi við Tjarnargötu“.
Sigmar tók fram, til að setja málið í samhengi, að það liggi fyrir miklu ítarlegri og faglegri greining á bak við litla viðbyggingu stjórnarráðshússins en mestu uppstokkun Stjórnarráðsins og ráðuneyta þess í lýðveldissögunni.
„Fagráðherrarnir, yfirmenn ráðuneyta, starfsmenn þeirra og undirstofnanir stóðu frammi fyrir orðnum hlut því að þetta var hluti af stólaskiptum en ekki stefnumótun með innihaldi, samráði og framtíðarsýn. Með öðrum orðum, þetta er dýrasti og minnst ígrundaði ráðherrakapall sögunnar,“ sagði hann.
Sigmar tók aftur á móti fram, að hann ætlaði ekki að útiloka að eitthvað af þessu yrði til gagns. Það væri svo sannarlega hægt að færa rök fyrir því að stokka stundum upp ráðuneyti í þágu stefnumarkmiða.
„En þegar svona viðamiklar breytingar á öllu Stjórnarráðinu eru gerðar þá hljótum við að ætlast til þess að formenn stjórnarflokkanna fái lánaða dómgreind hjá fleirum en sauðtryggum pólitískum aðstoðarmönnum.“