Skert skólahald í Ölduselsskóla fram að jólum

Skólahald í Ölduselsskóla verður skert fram að jólafríi.
Skólahald í Ölduselsskóla verður skert fram að jólafríi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ölduselsskóli var opnaður að nýju í morgun eftir að hafa verið lokað í gær vegna fjölda kórónuveirusmita meðal bæði nemenda og starfsfólks í skólanum. Þetta staðfestir Elínrós Benediktsdóttir, skólastjóri Ölduselsskóla, í samtali við mbl.is.

„Við verðum með skólann opinn þessa fjóra daga fram að jólafríi. Samkvæmt skóladagatali erum við komin í jólafrí eftir föstudaginn næstkomandi,“ segir Elínrós.

Frá því fyr­ir helgi höfðu komið upp smit hjá nem­end­um í minnst fimm ár­göng­um og hjá tveim­ur starfs­mönn­um skól­ans, að því er Elínrós greindi frá í samtali við mbl.is í gær.

Nú þegar skólinn hefur verið opnaður að nýju verði reynt að draga úr samgangi á milli fólks innan veggja skólans eins og kostur er, að sögn Elínrósar.

„Við verðum því með skerta stundaskrá fyrir mið- og unglingastigið en fullan skóladag fyrir yngsta stigið.“

Innt eftir því segir hún fleiri smit hafa greinst í hópnum síðan í gær. Þá sé fjöldi starfsmanna og nemenda enn ýmist í sóttkví eða einangrun vegna smitanna.

„Þetta eru nú ekki mörg ný smit  en okkur finnst eitt smit of mikið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert