Tekjulækkun gangi til baka

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri.
Stefán Eiríksson útvarpsstjóri.

Útvarpsstjóri segir að veruleg hækkun á framlögum úr ríkissjóði til Ríkisútvarpsins (Rúv.) skýrist af því að verið sé að bæta upp lækkuð framlög frá liðnu ári. Tekjur Rúv. hafi lækkað töluvert við það, en nú gangi lækkunin nokkuð til baka.

Lagt er til í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2022 að framlög til Ríkisútvarpsins verði aukin um 430 milljónir króna. Þau námu 4.655 milljónum á árinu sem er að líða en eiga skv. frumvarpinu að verða 5.085 m.kr., sem er ríflega 9% hækkun milli ára. Gert er ráð fyrir að þau hækki áfram á næstu árum um 4% á ári, vel umfram verðbólguspár.

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri segir að í fyrra hafi Ríkisútvarpið staðið frammi fyrir tekjulækkun, þar sem tekjuáætlun fjárlaga gerði ráð fyrir töluverðri lækkun vegna innheimtu útvarpsgjalds. „Þessari stöðu var mætt með margvíslegri hagræðingu í rekstri og fjárfestingu, þar á meðal fækkun starfsfólks. Sú lækkun á tekjum sem varð á fjárlögum þessa árs hefur samkvæmt tekjuáætlun fjárlagafrumvarps fyrir næsta ár gengið til baka að hluta,“ segir Stefán.

Rekstur Ríkisútvarpsins er aðallega fjármagnaður með auglýsingasölu og útvarpsgjaldi, en Stefán segir að það standi undir um 2/3 rekstrarkostnaðar. Í lögum um Rúv. sé kveðið á um að sá tekjustofn felist í árlegri fjárveitingu í fjárlögum, sem nemi að lágmarki áætlun fjárlaga um tekjur af útvarpsgjaldi.

Spurður um það í hvað þessi tekjuaukning fari minnir útvarpsstjóri á að Ríkisútvarpið hafi samkvæmt lögum og þjónustusamningi fjölmörgum skyldum að gegna. „Sú hækkun á tekjum sem frumvarp til fjárlaga gerir ráð fyrir er nægjanleg til þess að standa undir kjarasamningsbundnum launahækkunum og hækkun verðlags sem við blasir hjá Rúv. líkt og öðrum í samfélaginu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert