Framlög til heilbrigðismála aukast um tæpa 22 milljarða á þessu ári skv. frumvarpi til fjáraukalaga 2021, sem lagt hefur verið fram á Alþingi. Þar af vega þyngst framlög vegna kórónuveirufaraldursins en þau eru upp á um 16 milljarða. Samtals eru aukin útgjöld af ýmsum toga vegna faraldursins og afleiðinga hans upp á 23,6 milljarða kr.
Í frumvarpinu er sótt um heimild til að verja fjórum milljörðum kr. í kaup á annars vegar Hótel Sögu undir starfsemi Háskóla Íslands og hins vegar á jörðinni Mið-Fossum í Borgarbyggð vegna starfsemi Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Fram kemur að Hótel Saga yrði keypt með Félagsstofnun stúdenta og að eignarhlutur ríkisins yrði 73%. Nýta á húsnæðið fyrir menntavísindasvið Háskóla Íslands að mestu leyti. Fram kemur að fasteigninni fylgi byggingarréttur sem hægt væri að nýta undir aðra starfsemi háskólans í framtíðinni.
Nýta á jörðina á Mið-Fossum í Borgarbyggð undir kennsluaðstöðu á sviði reiðmennsku og til að byggja upp aukna aðstöðu fyrir tilraunir, kennslu og nýsköpun í jarðrækt við landbúnaðarháskólann.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.