300 þúsund í miskabætur vegna ummæla á Facebook

Sjö ummæli af þrettán voru dæmd dauð og ómerk.
Sjö ummæli af þrettán voru dæmd dauð og ómerk. mbl.is

Héraðsdómur Vesturlands dæmdi fyrr í mánuðinum sjö ummæli á Facebook dauð og ómerk og auk þess var stefnda gert að greiða 300.000 krónur í miskabætur. Stefnandi hafði krafist þess að þrettán ummæli yrðu dæmd dauð og ómerk og að stefnda yrði gert að greiða honum 1.500.000 krónur í miskabætur, ásamt vöxtum.

Málsatvik voru sú að stefnandi var giftur F, frænku stefnda. Í kjölfar skilnaðar stefnanda og F hélt stefnandi því fram að F og stefndi hefðu borið hann ýmsum röngum sökum á samskiptamiðlinum Facebook. Þá hafi stefndi tekið afstöðu með F í skilnaði þeirra og gengið hart fram fyrir hennar hönd.

Stefndi hélt því fram að hann hefði stutt frænku sína í gegnum erfiða tíma þar sem hún flutti út af heimili hennar og stefnda meðal annars vegna heimilisofbeldis sem F sagði stefnanda hafa beitt sig.

Ekki var fallist á að það eitt dugði að frænka stefnda hefði borið stefnanda þungum sökum og að stefndi teldi sig einungis vera að lýsa því sem hann hafði heyrt frá henni svo stefndi hefði óheftan rétt til að fullyrða á opinberum vettvangi að stefnandi hefði gerst sekur um mjög alvarleg og refsiverð brot.

Stefnandi ekki verið sakfelldur

Þá kemur einnig fram að það væri ágreiningslaust að enginn dómur hefur fallið þar sem stefnandi hefur verið sakfelldur fyrir einhver slík brot sem hann er sakaður um af stefnda enda engin ákæra verið gefin út á hendur honum. Þá lá fyrir að þau mál sem voru til rannsóknar hjá lögreglu vegna kæru fyrrverandi eiginkonu stefnanda á hendur honum höfðu verið látin niður falla áður en stefndi birti ummæli sín.

Málsástæðu stefnda um að sýkna beri í málinu þar sem hann hafi aldrei nefnt stefnanda á nafn var einnig hafnað. Að mati dómsins var það augljóst að þeir sem þekktu eitthvað til hafi mátt gera sér auðveldlega grein fyrir því við hvern væri átt, það hafi komið skýrt fram í framburði vitna og ummælin voru sett fram í litlu samfélagi.

Meðal þeirra ummæla sem dæmd voru ómerk voru:

„mann sem vitað er að hefur níðst á 2 börnum. Eins ógeðslegt brot og nokkur einstaklingur getur framið.“

„Þú gleymdir því samt að ég kallaði hann líka nauðgara sem hann vissulega er.“

„Fjölskyldu sem hafði verið misnotuð á viðbjóðslegan hátt af viðbjóðslegum einstaklingi sem átti að vernda hana.“

„Þú lepur allt upp úr þessum blessuðum siðblyndingja (sic) vini þínum. Ofbeldismanni, nauðgara og barnaperra. Gögnin tala sínu máli.“

Dómur Héraðsdóms Vesturlands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert