Athugasemdarfrestur framlengdur til 7. janúar

Grímsbær er við Bústaðaveg og hafa atvinnurekendur í húsinu sumir …
Grímsbær er við Bústaðaveg og hafa atvinnurekendur í húsinu sumir hverjir lýst yfir óánægju með fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðinu. mbl.is/sisi

Á fundi Skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar sem haldinn var nú í morgun var samþykkt að lengja athugasemdafrest vegna tillagna að breytingum á hverfaskipulagi Fossvogs- og Bústaðahverfis. Lagt var til að farið yrði að ósk íbúafundar sem haldinn var í síðustu viku en niðurstaðan var framlengdur frestur til 7. janúar.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði í samtali við mbl.is í gær að ráðið kæmi til með að taka afstöðu til óskar íbúanna um framlengdan athugasemdarfrest. En íbúar höfðu kvartað undan því að húsfélög í hverfinu fengju ekki nægilegt ráðrúm til þess að senda inn tillögur vegna skamms athugasemdarfrests.

Tildrög málsins eru að fyrir liggja frumtillögur að breytingu á hverfaskipulagi og er sá hluti er snýr að byggingu fjölbýlishúsa sitt hvorum megin við Bústaðaveg hvað umdeildastar. Haldinn hefur verið íbúafundur og málið í miðju íbúasamráðsferli.

Engin tillaga lá fyrir á fundinum

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna í borginni, segir í samtali við mbl.is furða sig á því að engin tillaga hafi legið fyrir um að framlengja frestinn þegar hann kom á fund ráðsins í morgun.

Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Borgarstjóri segir í gær að tekin verði afstaða til óskar um framlengdan frest. Ég mæti svo á fundinn og engin tillaga liggur fyrir. Ég legg því fram tillöguna að verða við ósk íbúanna og framlengja frestinn til 1. apríl en sú tillaga er felld.“

Málamyndartillaga varð þó lending ráðsins og var ákveðið að framlengja frestinn til sjöunda janúar næstkomandi.

Vanþekking Þórdísar?

Eyþór var einnig inntur eftir skoðun á ummælum Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur, borgarfulltrúa Viðreisnar, nú á dögunum en hún sagði í samtali við mbl.is að henni þætti „leitt að sjá Sjálfstæðisflokkinn í Fossvogi blása til fundar og gera úr þessu pólitískt mál“.

Vísar hún þar til fundar sem íbúasamtök hverfisins blésu til í Réttarholtsskóla miðvikudaginn síðasta. Mbl.is greindi frá fundinum og mættu Eyþór og Dagur á fundinn og sátu fyrir svörum. Meðal annars frá Lilju Alfreðsdóttur, ráðherra framsóknarflokksins.

Varðandi ummæli Þórdísar segir Eyþór að tvennt sé í stöðunni. „Annað hvort er þetta algjör vanþekking hjá borgarfulltrúanum, að hafa ekki kynnt sér hver boðaði fundinn. Eða þá að hún kýs að gera íbúana að Sjálfstæðismönnum.“

Þá bætti hann einnig við að málið væri pólitískt, enda „pólitísk ákvörðun um hvernig farið er í að byggja í hverfunum. Það er kjörinna fulltrúa að taka afstöðu á endanum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert